Lögmenn komast svo sannarlega ekki upp með að fara yfir fyrirfram ákveðinn tíma sinn í málflutningi í Hæstarétti þegar Markús Sigurbjörnsson, hæstaréttardómari, er við stjórnvölin. Þetta kom vel í ljós í málflutningi Ímon-málsins í dag.
Saksóknari hafði fengið úthlutað einni og hálfri klukkustund og passaði Markús vandlega upp á að það væri virt. Næst kom röðin að Sigurði G. Guðjónssyni, verjanda Sigurjóns Árnasonar, fyrrum bankastjóra Landsbankans. Sigurður hafði fengið eina klukkustund fyrir flutning sinn og þegar hann var kominn örfáar mínútur fram yfir stöðvaði Markús hann og upplýsti að hann væri kominn fram yfir tímann. Sagðist Sigurður þá hafa misreiknað sig örlítið og að hann myndi klára á 5-10 mínútum í það mesta. Heyrðist þá í Markúsi að aukinn málflutningstími hefði nú ekki verið það sem hann var að leggja til þegar hann kom með ábendinguna. Sigurður fékk engu að síður að klára málflutninginn, þótt hann hafi þurft að setja í fimmta gír í lokin.
Helga Melkorka Óttarsdóttir, verjandi Elínar Sigfúsdóttur, fyrrum framkvæmdastjóra hjá bankanum, tók svo til máls fyrir matarhlé, en það var aðeins 27 mínútur, miðað við klukkustunda matarhlé sem jafnan er gefið í héraðsdómi. Fram að þeim tíma hafði aðeins verið eitt stutt 5 mínútna hlé fyrir hádegi.
Eftir hádegishlé kom röðin að Reimari Péturssyni, verjanda Steinþórs Gunnarsson, fyrrum forstöðumanns verðbréfadeildar Landsbankans. Undir lok ræðunnar sagði Reimar að honum teldist til að hann ætti 5-10 mínútur eftir af ræðutíma sínum sem hann ætlaði að nýta í lokaröksemdir. Kom þá nákvæmni Markúsar vel í ljós. „Þær eru sex að tölu,“ sagði hann um fjölda mínútna sem Reimar hefði til ráðstöfunar.
Ljóst er að þessi tímastjórnun skilaði sér vel, því dómshaldinu lauk rétt fyrir hálf fjögur og því ljóst að ekki þyrfti að framlengja það til morgundagsins.