Viðskiptin ekki „business as usual“

Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, var sýknaður í Imon-málinu …
Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, var sýknaður í Imon-málinu í héraði. Hann er nú fyrir Hæstarétti vegna sama máls. mbl.is/Þórður

Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari og saksóknari í Ímon-málinu, sagði í málflutningi sínum fyrir Hæstarétti að svo liti út að viðskiptin með hlutabréf í Landsbankanum fyrir hrun, af hálfu bankans sjálfs, hafi verið einhverskonar „fiff“ og líkt því sem virðist hafa verið í öðrum bönkum á þessum tíma. Sagði hann að forsvarsmenn bankans hefðu átt að gera sér grein fyrir að ekkert bjartara væri framundan fyrir bankann þegar lánað var til stórra hlutabréfakaupa dagana fyrir hrun og að veðin væru lítil sem engin. Því hafi stjórnendur farið út fyrir heimildir sínar.

Markaðsáhættan alltaf hjá bankanum

Helgi sagði markaðsáhættuna alltaf hafa verið hjá bankanum þegar kom að lánunum, en um er að ræða lánveitingar til félagsins Ímon sem var í eigu Magnúsar Ármanns upp á fimm milljarða til kaupa á 4% í bankanum. Þá fékk félagið Azalea Resources, í eigu Ari Sal­mi­vouri, finnsks fjár­fest­is og viðskipta­fé­laga Björgólfs Thors Björgólfs­son­ar, 3,8 milljarða lán vegna kaupa á bréfum í bankanum. Í tilfelli Ímon fékkst viðbótarveð í bréfum Ímon í Byr, en Magnús var stærsti einstaki eigandi í sparisjóðnum. Sagði Helgi að líklega hafi bréfin sjálf í Landsbankanum verið veð fyrir um 95% af heildarlánsfjárhæðinni, þótt nefndar hafi verið tölur niður í 86%. Sagði hann það verulega bjartsýna útreikninga og raunhæfast væri að miða við 95%. Öll viðskiptin áttu sér stað í september og október 2008.

Helgi sagði að stofnfjárbréfin í Byr hefðu einnig verið veðsett að einhverju leyti fyrir og því teldi ákæruvaldið að of langt hafi verið gengið með veðsetninguna. Sagði hann að notast hefði verið við gamalt verðmat á Byr við lánsákvörðunina og að margt hafi breyst á þeim tíma og yfirmönnum Landsbankans hafi átt að vera það ljóst.

Ímon eignarhaldsfélag í vanskilum og ekki með rekstrartekjur

Benti hann á að Ímon væri eignarhaldsfélag sem hefði á þessum tíma ekki haft neinar rekstrartekjur og verið í vanskilum á þessum tíma. Stjórnendum hefði átt að vera ljóst á þessum tíma að ekki væri líklegt að neitt bjartara væri framundan hjá íslensku bönkunum og því væri verið að stefna fjármunum bankans í hættu með lánveitingunum. Á þessum tíma hafi stjórnendur bankans verið vakandi og sofandi yfir stöðu bankans og mikið púður hafi farið í að tryggja að þau bréf sem bankinn átti yrðu seld út af, utan markaða, svo hægt væri að kaupa meira til að halda verði bréfanna uppi.

Aðeins í boði fyrir ákveðna viðskiptavini

Þar sem engin eftirspurn hafi verið eftir bréfunum á þessum tíma sagði Helgi að reynt hefði verið ða koma þeim til manna í „innsta hring“ eða þeim sem væru í miklum viðskiptum við bankann. Meðal þeirra væri Magnús Ármann sem var eigandi Ímon. Sagði hann þetta augljóslega hafa verið „örvæntingafull viðskipti,“ en í greinargerðum hafi ákærðu reynt að láta líta út fyrir að viðskiptin væru eðlileg, eða „business as usual.“ Svo hafi aftur á móti ekki verið og þessi tilteknu viðskipti með fullri fjármögnun hafi bara boðist ákveðnum viðskiptavinum, en ekki almennt.

Saksóknari fór einnig yfir að 72% af hlutabréfum í Landsbankanum hafi á þessum tíma verið bundið í eignarhaldsfélögum sem voru tengd eigendum bankans. Því hafi aðeins 28% bréfanna verið raunverulega á markaði og sagði hann að horfa þyrfti til þess þegar Ímon hafi keypt 4% hlutafjárins.

Þrefalt miðað við útlánareglur

Vísaði Helgi einnig til þess að samkvæmt reglum bankans hafi ekki verið heimilt að veita lán til kaupa á bréfum í Landsbankanum nema fyrir 30% kaupanna. Sagði hann að þarna væri þrefaldur munur á því sem veitt var til Ímons og Azalea.

Flutn­ing­ur á Ímon-mál­inu svo­kallaða fyr­ir Hæsta­rétti hófst í morg­un, en þar eru Sig­ur­jón Árna­son, fyrr­ver­andi banka­stjóri Lands­bank­ans, Sig­ríður Elín Sig­fús­dótt­ir, fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri fyr­ir­tækja­svið bank­ans og Steinþór Gunn­ars­son, fyrr­ver­andi for­stöðumaður verðbréfamiðlun­ar bank­ans, ákærð fyr­ir umboðssvik og markaðsmis­notk­un.

Í héraðsdómi voru þau Sig­ur­jón og Elín sýknuð af ákær­unni, en Steinþór var fund­inn sek­ur og fékk hann 9 mánaða dóm, þar af 6 mánuði skil­orðsbundna.

Vill miða við Exeter dóminn

Saksóknari fór við lok málflutnings fram á að ákærðu yrði gerð refsing og vísaði til dóms í Exeter-málinu. Sagði hann að í því máli hefði verið um lægri upphæðir að ræða, en að þar hefðu dæmdu haft persónulega hagsmuni af athæfinu. Í Exeter-málinu var um að ræða 1,5 milljarða lánveitingu og sagði Hæstiréttur að í því máli hefðu sakfelldu misnotað aðstöðu sína og gengið gegn lánareglum bankans. Var þar dæmt í 4 og 4,5 ára fangelsi.

Elín Sigfúsdóttir og Helga Melkorka Óttarsdóttir, verjandi hennar, þegar málið …
Elín Sigfúsdóttir og Helga Melkorka Óttarsdóttir, verjandi hennar, þegar málið var tekið fyrir í héraði. Þórður Arnar Þórðarson
Steinþór Gunnarsson, fyrrverandi forstöðumaður verðbréfamiðlunar bankans, (t.h. fremst á myndinni) …
Steinþór Gunnarsson, fyrrverandi forstöðumaður verðbréfamiðlunar bankans, (t.h. fremst á myndinni) var sakfelldur í héraði. mbl.is/Þórður
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka