„Nýgerðir tollasamningar sem landbúnaðarráðherra gerði við Evrópusambandið eru stóráfall fyrir íslenska svínabændur og setja rekstrarumhverfi svínaræktar á Íslandi í uppnám,“ segir í tilkynningu frá Svínaræktarfélagi Íslands en félagið átelur landbúnaðarráðherra harðlega fyrir að samþykkja stóraukinn tollfrjálsan innflutning á svínakjöti án samráðs við svínabændur.
Tilkynning félagsins í heild:
Rekstrargrundvöllur svínaræktar í uppnámi
Nýgerðir tollasamningar sem landbúnaðarráðherra gerði við Evrópusambandið eru stóráfall fyrir íslenska svínabændur og setja rekstrarumhverfi svínaræktar á Íslandi í uppnám. Svínaræktarfélag Íslands átelur landbúnaðarráðherra harðlega fyrir að samþykkja stóraukinn tollfrjálsan innflutning á svínakjöti án nokkurs samráðs við svínabændur og án þess að fyrir liggi hvernig rekstrarumhverfi greinarinnar verður tryggt til framtíðar. Samningarnir fela í sér grundvallarbreytingu á rekstrarumhverfi svínaræktar.
Á Íslandi eru gerðar ríkar kröfur til svínabænda af hálfu ríkisins varðandi velferð og aðbúnað dýra. Þá eru takmarkanir á lyfjanotkun mun meiri en í þeim löndum sem svínakjöt er flutt frá til Íslands. Þessar kröfur tryggja að aðstæður við íslenskan svínabúskap eru með því besta sem gerist en leiða á móti til aukins kostnaðar sem veikir samkeppnisstöðu íslenskra svínabænda. Til þess að rétta þessa samkeppnisstöðu hafa verið lagðir tollar á innflutt kjöt, en íslenskir svínabændur njóta nær engra beinna styrkja frá hinu opinbera eins og til dæmis sauðfjárrækt og kúabúskapur.
Félagið hefur þegar gert ráðherra grein fyrir alvarlegri stöðu svínaræktar á Íslandi í kjölfar kjaradeilu ríkisins og dýralækna sem leiddi til langvinns verkfalls þeirra síðarnefndu, en tjónið vegna þess hleypur á hundruðum milljóna. Þá hafa stjórnvöld sett fram auknar kröfur um aðbúnað á svínabúum sem útheimta mikinn kostnað fyrir svínabændur. Í mörgum samkeppnislöndum Íslands fá svínabændur opinbera styrki til að mæta slíkum kröfum en enginn slíkur stuðningur er í boði hér á landi. Vegna þeirrar óvissu fyrir rekstrarumhverfi svínaræktar á Íslandi sem samningurinn við Evrópusambandið hefur skapað er ófært að leggja í nauðsynlegar fjárfestingar á svínabúum til að bæta aðbúnað í samræmi við auknar kröfur stjórnvalda. Það skýtur einnig skökku við að landbúnaðarráðherra skuli ákveða að stórauka innflutning á svínakjöti frá löndum þar sem svínabúskapur uppfyllir ekki allar þær kröfur sem gerðar eru til íslenskra svínabænda.
Nýgerðir tollasamningar við Evrópusambandið koma á versta tíma fyrir greinina. Svínabændur krefjast þess að stjórnvöld útskýri hvernig þau ætla að koma til móts við svínabændur vegna þeirra grundvallarbreytinga sem samningarnir fela í sér. Það er ekki sanngjarnt að tollfrjáls innflutningur sé margfaldaður án þess að fyrir liggi útfærsla á því hvernig jafna skuli samkeppnisaðstöðu svínabænda og tryggja rekstrarforsendur til framtíðar.