Biðst afsökunar á ummælunum

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins á aukafundi borgarstjórnar í gærkvöldi. Áslaug Friðriksdóttir sést …
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins á aukafundi borgarstjórnar í gærkvöldi. Áslaug Friðriksdóttir sést hér neðst fyrir miðri mynd. mbl.is/Styrmir Kári

Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, biðst afsökunar á ummælum sem féllu á aukafundi borgarstjórnar Reykjavíkur í gærkvöldi. „Ég var ekki að líkja meirihlutanum við nasista en það hefur misskilist og það þykir mér mjög leitt.“

Þetta kemur fram í færslu sem Áslaug hefur birt á Facebooksíðu sinni. 

Hún er svohljóðandi:

„Á borgarstjórnarfundi í gær fjallaði ég um alvarleika þess viðhorfs að telja sig æðri lögum í skjóli þess að um góðan málstað væri að ræða. Tilefnið var að ég taldi ákveðna borgarfulltrúa meirihlutans ekki skilja hversu hættulegt fordæmi væri þar með sett. Ekki væri alltaf öruggt að gott fólk væri við stjórn og tók ég í kjölfarið svo til orða að fordæmið yrði sérstaklega slæmt ef til dæmis nasistar kæmust til valda. Þeir gætu þá í skjóli þess að þeir trúðu á ákveðinn málstað virt lög að vettugi eins og borgarstjórnarmeirithlutinn gerði fyrir viku.

Ég var ekki að líkja meirihlutanum við nasista en það hefur misskilist og það þykir mér mjög leitt. Ég vil því biðjast afsökunar á því að hafa ekki valið orð mín af meiri kostgæfni og vandað betur til máls míns.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka