Búið að yfirheyra parið oftar en einu sinni

Fólkið kom með Norrænu til Seyðisfjarðar.
Fólkið kom með Norrænu til Seyðisfjarðar. Pétur Kristjánsson

Farið verður fram á framlengingu á gæsluvarðhaldi yfir hollensku pari sem var handtekið á Seyðisfirði í byrjun septembermánaðar. Þau voru áður úrskurðuð í gæsluvarðhald í fjórar vikur og rennur það út í dag. Parið hefur verið yfirheyrt oftar en einu sinni vegna málsins.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu á Austurlandi er rannsókn málsins enn í fullum gangi í samstarfi við embætti Tollstjóra, lögreglu á höfuðborgarsvæðinu og færeysk tollayfirvöld. Þá hefur lögregla hér á landi haft samband við lögreglu í útlöndum.

Frétt mbl.is: Fíkniefni falin í gaskútum og varadekki

Rökstuddur grunur er um stórfellt fíkniefnabrot sem geti varðað allt að 12 ára fangelsi. Í bíl fólksins fundust fjórtán niðursuðudósir sem maðurinn sagði að innihéldu fíkniefni. Við grófa rannsókn lögreglu kom í ljós að hver dós innihélt um 800 grömm af óþynntu MDMA eða samtals 11,2 kíló.

Auk þess liggur fyrir að í varadekki bifreiðarinnar og í tveimur gaskútum er eitthvað falið og sagði maðurinn að það væru líka fíkniefni.  Miðað við þyngd vara­dekks­ins og gaskút­anna, megi áætla að í þeim geti verið fal­in u.þ.b. 70 kíló af ætluðum fíkni­efn­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert