Nautakjöt bara framleitt í útlöndum

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG. mbl.is/Styrmir Kári

„Mér finnst þetta stórfurðuleg uppákoma og það þarf að fara yfir þetta. Mest undrar mig að þetta skuli gert áður en gengið er frá búvörusamningi á heildstæðum grundvelli um starfsskilyrði greinarinnar þar sem þetta væri tekið með í reikninginn,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á Alþingi í dag þar sem hann gagnrýndi harðlega nýlegan samning Íslands við Evrópusambandið um lækkun tolla á landsbúnaðarvörum.

Steingrímur sagði furðulegt að samningurinn hafi verið gerður án þess að ræða við bændur. „Þó að menn kunni að segja að það opnist möguleikar til útflutnings á móti þá eru það aðrar greinar sem mundu fyrst og fremst njóta þess eins og sauðfjárrækt og mjólkurframleiðsla, það er lambakjöt og skyr sem kannski eru einhverjir raunhæfir möguleikar á að flytja út í auknum mæli. En þetta er þungt högg á nautakjötsframleiðsluna til dæmis og verður ekki annað séð en að verið sé að útvista verulegum hluta hennar með þessu, það sé bara stefna ríkisstjórnarinnar að það sé framleitt í útlöndum.“

Sama gilti um svínabændur og kjúklingabændur. Rifjaði Steingrímur upp að svínabændur væru að jafna sig eftir mjög kostnaðarsamt verkfall. „Báðar þessar greinar taka á sig auknar kröfur vegna hertra reglna um aðbúnað að dýrum, sem í sjálfu sér er gott upp á dýravelferð, en þær þurfa að gera það án nokkurs stuðning frá stjórnvöldum hér og eiga þá að fara í samkeppni við greinar sem fá stuðning í þessum tilvikum erlendis.“ Hvatti hann til þess að atvinnuveganefnd Alþingis tæki málið til skoðunar.

„Mig grunar að það megi lítinn tíma missa, annars gæti þetta haft verulega neikvæðar afleiðingar á ákvarðanir bænda um að jafnvel bregða búskap á næstu vikum og mánuðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert