„Efst á blaði“ að semja um málefni fatlaðra

Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra, á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í dag.
Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra, á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Fjárhagsleg málefni vegna þjónustu við fatlað fólk eru efst á blaði í samskiptum okkar við ríkið um þessar mundir, það er alveg á hreinu,“ sagði Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, í „samtali“ hans við Eygló Harðardóttur velferðarráðherra á fjármálaráðstefnu sambandsins sem fram fer á Hilton hóteli í Reykjavík í dag. Sigmundur Ernir Rúnarsson sjónvarpsstjóri stjórnaði skoðanaskiptum þeirra. Hér má fylgjast með ráðstefnunni í beinni.

Frétt mbl.is: Við stefnum fram af brúninni

Í frétt á vef Sambandsins kemur fram að ráðherra boðaði niðurstöðu fljótlega í endurmati vegna yfirfærslu málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga en sýndi ekki á spil ríkisins að öðru leyti en því að ljóst væri að sveitarfélögin hefðu tekið á sig kostnað sem ekki hefði verið gert ráð fyrir þegar þau tóku við málaflokknum.

Halldór sagði að sveitarfélögin yrðu síðar að taka líka að sér málefni aldraðra frá ríkinu en um slíkt yrði ekki rætt fyrr en málefni aldraðra kæmust „algjörlega á hreint“. Síðan yrði að fást reynsla af væntanlegu endurmati og sveitarstjórnarfólk að fá tækifæri til að hittast á landsfundi til að bera saman bækur sínar um reynsluna áður en lengra yrði haldið. Semja yrði meðal annars um að útsvar hækkaði en tekjuskattur lækkaði á móti til að standa undir kostnaði við verkefnin sem sveitarfélögin tækju við frá ríkinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert