Níu þingmenn, bæði þingmenn stjórnar- og stjórnarandstöðu, lögðu í dag fram frumvarp á Alþingi um ætlað samþykki um líffæragjöf. Samþykki þetta vísar til þess að við andlát megi gera ráð fyrir að hinn látni fallist á að notuð séu líffæri úr honum nema hann hafi með skýrum hætti látið í ljós vilja sinn um að svo væri ekki. Frumvarp af svipuðum meiði hefur áður verið lagt fram á Alþingi.
Í greinargerð með frumvarpinu segir: „Í gildandi lögum um brottnám líffæra, nr. 16/1991, er miðað við að líffæri eða lífræn efni verði ekki numin brott úr líkama látins manns nema fyrir liggi samþykki hans eða nánasta vandamanns hans fyrir því, sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. laganna. Því má segja að lögin miði nú við „ætlaða neitun“, þ.e. að hinn látni hefði ekki veitt samþykki fyrir brottnámi líffæris eða lífræns efnis að sér látnum nema annað liggi fyrir.“
Mikil vitundarvakning varð fyrr á árinu um mikilvægi líffæragjafar þegar embætti landlæknis opnaði fyrir sérstaka gátt á vef sínum þar sem fólk gat skráð sig sem líffæragjafa.
Frétt mbl.is: Fjölgað um 10.000 á mánuði
Í frumvarpinu er eftir sem áður gert ráð fyrir þeim möguleika að fólk banni notkun líffæra sinna: „Með frumvarpinu er staðið vörð um sjálfsákvörðunarrétt fólks um eigin líkama með því að gera óheimilt að nema brott líffæri eða lífræn efni úr líkama látinna einstaklinga hafi þeir lýst sig andstæða því eða brottnám af öðrum sökum talið brjóta í bága við vilja þeirra,“ segir í greinargerðinni.
Flutningsmenn frumvarpsins eru Silja Dögg Gunnarsdóttir, Willum Þór Þórsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Vigdís Hauksdóttir,
Össur Skarphéðinsson, Róbert Marshall, Brynhildur Pétursdóttir.