Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, telur það brot á jafnréttislögum að dómnefnd sem mat hæfni umsækjenda um starf hæstaréttardómara hafi eingöngu verið skipuð körlum. Henni þyki fróðlegt að vita hvaða rökum hafi verið beitt við skipan nefndarinnar.
Frétt mbl.is: Horft til stjórnsýslustarfa Karls
Dómnefnd sem mat hæfni þriggja umsækjenda um starf hæstaréttardómara var skipuð fimm karlmönnum en engri konu. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að Karl Axelsson væri hæfastur af þeim Ingveldi Einarsdóttur og Davíð Þór Björgvinssyni.
Í tilfellum þar sem þröngrar sérþekkingar er krafist er heimilt að líta fram hjá jafnréttisjónarmiðum við skipan nefndar, að sögn Kristínar. Það sé hins vegar almennt séð lögbrot að skipa eingöngu karlmenn í nefnd af þessu tagi nema málefnaleg rök hnígi að því.
„Það er mjög vandséð hvaða rök geta réttlætt það að nefndin sé svona skipuð. Það eiga ekki að vera svona skipaðar nefndir,“ segir Kristín.
Kristín er stödd erlendis og segist því ekki hafa haft ráðrúm til þess að kynna sér umsögn dómnefndarinnar um umsækjendurna þrjá.
Í 4. grein laga 15/1998 um dómstóla segir að ráðherra skuli skipa fimm menn í dómnefndina. Tveir nefndarmenn skuli tilnefndir af Hæstarétti, þar á meðal formann nefndarinnar. Dómstólaráð og Lögmannafélag Íslands tilnefna hvort sinn manninn og Alþingi kýs þann fimmta.
Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofustjóra Hæstaréttar þarf samþykki meirihluta hæstaréttardómara fyrir tilnefningum réttarins. Hann vildi ekki tjá sig frekar um hvernig það atvikaðist að eingöngu karlmenn voru skipaðir í dómnefndina og vísaði á innanríkisráðuneytið.