Ágreiningur er á milli innanríkisráðuneytisins annars vegar og Hæstaréttar, Lögmannafélags Íslands og dómstólaráðs hins vegar um hvort að jafnréttislög eigi við um dómnefnd sem metur hæfni umsækjenda um störf hæstaréttardómara. Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, segir fulla ástæðu til fara yfir hvernig dómarar eru skipaðir. Eingöngu karlar eiga nú sæti í dómnefndinni.
Skipan dómnefndarinnar hefur verið gagnrýnd í kjölfar þess að hún mat Karl Axelsson hæfari en þau Ingveldi Einarsdóttur og Davíð Þór Björgvinsson til að gegna starfi hæstaréttardómara. Fimm karlmenn skipa nefndina en engin kona. Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, telur þetta brjóta gegn 15. grein jafnréttislaga sem kveður á um að við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skuli þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða.
Tveir nefndarmenn eru tilnefndir af Hæstarétti, þar á meðal formaður nefndarinnar. Dómstólaráð og Lögmannafélag Íslands tilnefna hvort sinn manninn og Alþingi kýs þann fimmta.
Í skriflegu svari innanríkisráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is um hvers vegna dómnefndin var aðeins skipuð körlum þrátt fyrir þetta ákvæði jafnréttislaga segir að ráðuneytið telji að lög um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna nr. 10/2008 eigi við um skipun í þessa nefnd eins og aðrar nefndir. Ráðuneytið bendi ávallt á þetta í bréfum sínum til tilnefningaraðila þegar tilnefninga sé óskað. Hins vegar hafi ekki allir tilnefningaraðilar verið sammála þessari túlkun ráðuneytisins, þ.e. Hæstiréttur, Lögmannafélag Íslands og dómstólaráð.
Innanríkisráðherra segir að ráðuneytið sé bundið af þeim tilnefningum sem því berst og eins og umsögn dómnefndarinnar um umsækjendur um starf hæstaréttardómara.
„Mér finnst ekki gott að í svona nefnd veljist einungis karlmenn. Dómstólar í landinu þurfa líka að endurspegla þjóðfélagið. Mér finnst þessi skipun mála ekki styðja við þá skoðun mína. Ég held að það sé nauðsynlegt að skoða það hvernig þessar tilnefningar fara fram og ég hygg að þessi sjónarmið þeirra séu ekki í anda jafnréttislaga, að þau gildi bara hér en ekki þar,“ segir innanríkisráðherra.
Það sé skýr vilji löggjafans að lög um jafnrétti kynjanna gildi við skipan í ráð og nefndir á vegum ríkisins, að sögn Ólafar. Hún segist ekki geta sagt til um á hvaða forsendum tilnefningaraðilarnir líti svo á að jafnréttislög eigi ekki við um skipun dómnefndarinnar.
Skrifstofustjóri Hæstaréttar vísaði á innanríkisráðuneytið í dag þegar mbl.is leitaði upplýsinga um hvers vegna aðeins karlar hafi verið skipaðir aðalmenn í nefndina.
Ólöf segir að málið gefi tilefni til þess að ráðuneytið fari yfir hvernig staðið er að skipan dómara. Hún bendir á að Alþingi hafi einnig komið að því að nefndin sé aðeins skipuð körlum þar sem þingmenn hafi kosið karl sem tilnefningu Alþingis í nefndina.
„Það kemur bara í ljós núna að þessi ágalli á þessu fyrirkomulagi verður áberandi sem gefur tilefni til að fara yfir þetta nánar,“ segir hún.
Allir varamenn dómnefndarinnar eru konur.