„Kjarasamningarnir voru í raun þvinguð niðurstaða sem fékkst í skugga verkfalla eða verkfallshótana [...] Það sem er að gerast er viðurkenning á því að ekki verði hjá því komist að gera óraunhæfa og óskynsamlega kjarasamninga sem ná til alls vinnumarkaðarins. Síðar verði leitast við að lágmarka skaða þeirra á samfélagið með því að vinna á skynsamlegan hátt síðar,“ sagði Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, setningarræðu fjármálaráðstefnu sambandsins, á Hilton Reykjavík Nordica í morgun.
Formaðurinn sagði við upphaf samkomunnar að við stjórnendum sveitarfélaga blasti dökk mynd vegna nýrra og þungra klyfja sem þeim væru bundnar með kjarasamningum ársins. Gera mætti ráð fyrir því að bregðast þyrfti við með fækkun starfsfólks sveitarfélaga: „Við stefnum fram af brúninni, vitum öll að við þurfum að bremsa en enginn er tilbúinn að stíga á bremsurnar.“
Halldór Halldórsson sagði síðan orðrétt um stöðuna:
„Fljótlega kom í ljós að ákveðin stéttarfélög á opinberum vinnumarkaði vildu fá enn meiri launahækkanir en samið hafði verið um á almenna markaðinum. Það kallaði á átök og harðar vinnudeilur sem enduðu með lagasetningu og þeim gerðardómi sem við þekkjum. Úrskurður gerðardóms felur í sér launahækkanir sem eru langt umfram það sem almennu samningarnir gera ráð fyrir og hefur þessi dómur sett allan vinnumarkaðinn í alvarlegt uppnám.
Í skugga þessa standa nú yfir kjaraviðræður á vegum sveitarfélaga vegna nær allra starfsmanna sinna annarra en grunnskólakennara. Viðsemjendur sveitarfélaga velja í kröfum sínum það besta úr úrskurði gerðardóms að þeirra mati og það besta úr samningum á almennum vinnumarkaði. Það þýðir að launahækkunarkröfurnar, verði þær samþykktar, munu leiða til mjög mikils launakostnaðarauka hjá sveitarfélögum. Staðan er því grafalvarleg. Þessar kröfur leggjast ofaná um 15% launakostnaðarhækkanir hjá sveitarfélögunum milli áranna 2013 og 2014, sem er hlutfallshækkun sem síðast sást á tímum óðaverðbólgu á Íslandi.
Það eina jákvæða og raunhæfa sem nú er að gerast á vinnumarkaði að mínu mati er, að nú fara fram viðræður á milli aðila um að smíða nýtt vinnumarkaðsmódel að erlendri fyrirmynd. Samkvæmt slíku módeli eru kjarasamningar gerðir á grundvelli hagvaxtar og þeirrar framlegðar sem fyrirtæki skila. Verðbólgu er haldið niðri og kjarasamningar skila launafólki kaupmáttaraukningu. Slík vinnubrögð á að sjálfsögðu að stunda hér á landi.“
„Við skulum gera okkur grein fyrir því að staðan á vinnumarkaði og í þjóðarbúskapnum er þannig að við munum að öllum líkindum upplifa enn eitt verðbólguskeiðið, rýrnun krónunnar og rýrnun kaupmáttar. Ígildi gömlu gengisfellingarleiðarinnar liggur því í loftinu – óraunhæfar launahækkanir verða þannig teknar til baka af launþegum og þegar upp er staðið hafa allir tapað.“