InDefence hópurinn hefur sent Seðlabankastjóra bréf þar sem þess er óskað að birta hin svokölluðu stöðugleikaskilyrði sem bankinn setur í tengslum við stöðugleikaskattinn. Í bréfinu er auk þess óskað skýringa á því hvernig þau jafngildi stöðugleikaskattinum með hliðsjón af greiðslujöfnuði þjóðarinnar.
Því til viðbótar óska bréfritarar eftir að birt verði tilboð slitabúa föllnu bankanna um stöðugleikaframlög og hvernig þau uppfylli stöðugleikaskilyrðin, áhrifa stöðugleikaframlaganna á greiðslujöfnuð þjóðarinnar og endurmati á stöðugleikaskilyrðunum með tilliti til þeirrar áhættu sem Ísland búi við, til dæmis vegna viðvarana Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, enda beri almenningur tjón af því ef bjartsýnar áætlanir gangi ekki eftir.
Þar sem knappur tími sé til stefnu biðja þeir sem bréfið skrifa um að upplýsingarnar verði birtar innan viku.
Davíð Blöndal, einn þeirra sem ritar bréfið segir seðlabankann enn ekki hafa birt stöðugleikaskilyrðin opinberlega í samræmi við loforð ríkisstjórnarinnar um að ferlið við afnám gjaldeyrishafta verði opið og gagnsætt. Miðað við þann tíma sem mun taka slitabúin að ganga frá sínum málum, s.s. að boða og halda kröfuhafafund um stöðugleikaframlagið og fá nauðasamninga samþykkta af dómstólum, er ljóst að Seðlabankinn verður að taka afstöðu á næstu dögum/vikum til tillagna slitabúanna um stöðugleikaframlag.
Það sé að hans mati því mjög stutt í að teknar verði ákvarðanir sem munu móta lífskjör hérlendis til langrar framtíðar og það án þess að almenningur eða greiningaraðilar fái tækifæri til þess að koma með athugasemdir.
Auk Davíðs skrifa Dr. Agnar Helgason, Ólafur Elíasson, Dr. Torfi Þórhallsson og Ragnar Ólafsson undir bréfið.