Erfitt að bregða út af lögunum

Reimar Pétursson, formaður Lögmannafélags Íslands.
Reimar Pétursson, formaður Lögmannafélags Íslands. mbl.is/Styrmir Kári

Lög um skipun hæfnisnefndar hæstaréttardómara eru skýr og erfitt að bregða út af þeim til að tryggja jöfn hlutföll kynjanna í þeim eins og innanríkisráðuneytið hefur viljað, að sögn Reimars Péturssonar, formanns Lögmannafélags Íslands. Boðuð tillaga um að breyta lögunum hafi aldrei komið fram.

Dómnefndin sem leggur mat á umsækjendur um störf hæstaréttardómara er eingöngu skipuð karlmönnum um þessar mundir þrátt fyrir að 15. grein jafnréttislaga kveði á um að kynjahlutföll í nefndum á vegum ríkisins séu sem jöfnust. Hæstiréttur tilnefnir tvo menn í nefndina, dómstólaráð einn, Lögmannafélag Íslands einn og Alþingi einn. Innanríkisráðherra hefur talið sig bundinn af þeim tilnefningum.

Innanríkisráðuneytið sagði í gær að þessir tilnefningaraðilar væru ekki sammála því um þá túlkun að jafnréttislög eigi við um skipun nefndarinnar.

Skýr ákvæði um skipun nefndarinnar

Reimar bendir hins vegar á að gera þurfi greinarmun á hvernig eigi að skipa í nefndina samkvæmt lögum annars vegar og hins vegar hvernig ráðuneytið myndi vilja að hún væri skipuð. Ráðuneytið hafi viljað fara aðra aðferð en kveðið sé á um í dómstólalögum til þess að tryggja jafnan hlut kynjanna. Í stað þess að tilnefna einn aðalmann og einn varamann í nefndina myndu tilnefningaraðilar tilnefna tvo einstaklinga, karl og konu, sem aðalmenn og varamenn. Um það er hins vegar ekki fjallað í lögunum.

Umræða um þessa túlkun fór fram árið 2010 þegar menn voru að túlka lögin í fyrsta skipti og segir Reimar að sér skiljist að henni hafi lokið með því að ráðuneytið hafi gefið það út að það myndi leggja til breytingar á dómstólalögum. Hann telur að það megi skoða sem nokkurs konar staðfestingu ráðuneytisins á þeim skilningi að ákvæði jafnréttislaga ættu ekki við um skipun í dómnefndina.

„Það eru mjög nákvæm ákvæði í lögunum um hvernig þessar tilnefningar eiga að fara fram og menn fara bara eftir þeim. Ákvæðin eru mjög skýr og það er erfitt að bregða út af þeim með þeim hætti sem ráðuneytið vildi,“ segir Reimar.

Óeðlilegt að hafa samráð um tilnefningarnar

Hann segir að fyrir tilviljun hafi óheppilega raðast í nefndina að þessu sinni. Allir varamenn í nefndinni eru hins vegar konur og bendir Reimar á að algengt sé að aðalmenn víki sæti í störfum sínum þar sem þeir hafi einhver tengsl við umsækjendur. Þannig hafi varamaður félagsins oft tekið þátt í störfum nefndarinnar.

Afar óeðlilegt væri ef Lögmannafélagið ætti í samskiptum við Hæstarétt og dómstólaráð um það hver ætlaði að tilnefna hvern í dómnefndina til þess að tryggja jöfn kynjahlutföll.

„Það er enginn vilji hjá Lögmannafélaginu að gera hlut kvenna rýrari en efni standa til í nefndum og ráðum. Við förum auðvitað eftir lögum, það er svona grundvallaratriði,“ segir Reimar.

Í 4. grein laga 15/1998 um dómstóla sem fjallar um skipan dómnefndar segir:

[Ráðherra] skipar fimm menn í dómnefnd til að fjalla um hæfni umsækjenda um embætti hæstaréttardómara og héraðsdómara. Tveir nefndarmanna skulu tilnefndir af Hæstarétti, þar af annar þeirra sem formaður nefndarinnar, og skal að minnsta kosti annar þeirra ekki vera starfandi dómari. Tilnefnir dómstólaráð þriðja nefndarmanninn en Lögmannafélag Íslands þann fjórða. Fimmti nefndarmaðurinn skal kosinn af Alþingi. Varamenn skulu tilnefndir og skipaðir á sama hátt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert