Geislavirkni mjög lítil í neysluvatni

Athugun geislavarna sýnir að magn radons er mjög lítið í …
Athugun geislavarna sýnir að magn radons er mjög lítið í neysluvatni og ekki umfram það sem eðlilegt getur talist. AFP

Styrkur náttúrulegra geislavirkra efna í neysluvatni á Reykjanesi er mjög lítill og langt undir þeim viðmiðum sem notast er við t.d. í Svíþjóð. Þetta kemur fram í svari Geislavarna til Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja í dag, en eftirlitið hafði óskað eftir áliti Geislavarna á því hvort hætta sé á að neysluvatn úr vatnsbóli í grennd við Reykjanesvirkjun sé geislavirkt umfram það sem eðlilegt getur talist.

Geislavarnir vitna til þess að á árunum 2003-2004 hafi farið fram mælingar á náttúrulegum geislavirkum efnum efnum (radon) í tugum vatnssýna víðsvegar af landinu þar á meðal frá Vatnsveitu Reykjaness. Mælingarnar, sem voru samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Umhverfisstofnunar sýndu að mjög lítið er af náttúrulegum geislavirkum efnum í vatni á Íslandi miðað við önnur lönd en það stafar af því að hve ungur og basaltríkur bergrunnurinn hér er.

Styrkur radons mældist nánast alltaf undir 5 Bq/l og í  tveimur sýnum sem tekin voru úr vatnsbóli Suðurnesjamanna í Lágum mældist styrkur radons 0.5 og 0.7 Bq/l.

Starfsmenn Íslenskra orkurannsókna tóku vatnssýni þann 22. september á nokkrum stöðum, meðal annars úr vatnsbóli Suðurnesjamanna. í Lágum og ferskvatnsholu austan undir Sýrfelli, þaðan sem neysluvatn Reykjanesvirkjunar er tekið.

Styrkur náttúrulegra geislavirkra efna (radon) var mældur í sýnunum. Þetta var gert að beiðni HS Orku. Styrkur radons mældist mjög lítll.  Í grunnvatni úr vatnsbóli í Lágum mældist styrkur radons um 0.1 Bq/l og úr neysluvatnsholu Reykjanesvirkjunar um 0.2 Bq/l.

Heilbrigðiseftirlit Suðunesja óskaði þann 22. september álits Geislavarna ríkisins á því hvort hætta sé á að neysluvatn úr vatnsbóli í grennd við Reykjanesvirkjun sé geislavirkt umfram það sem eðlilegt getur talist.

Til samanburðar má geta þess að algengur styrkur radons í grunnvatni í Svíþjóð er 10 – 300 Bq/l en það stafar af því hve gamall og granítríkur bergrunnurinn þar er. Viðmið í Svíþjóð eru 100 Bq/l fyrir opinberar vatnsveitur og 1000 Bq/l fyrir einkavatnsveitur.

Í svari Geislavarna segir að með vísan til ofanskráðs þá sé það mat stofnunarinnar að neysluvatn úr vatnsbóli Suðurnesjamanna í Lágum og úr vatnsbóli austan undir Sýrfelli innihaldi mjög lítið af náttúrulegum geislavirkum efnum og ekki umfram það sem eðlilegt getur talist. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert