Hópur stelpna í tíunda bekk Háteigsskóla ákvað að mæta í skólann í magabolum í dag til þess að mótmæla tilmælum frá kennurum skólans um að klæðast ekki bolunum vinsælu. Aðstoðarskólastjóri Háteigsskóla segir að málið hafi opnað á umræðu um klæðaburð nemenda á skólatíma en að skólinn hafi aldrei reynt að stjórna klæðaburði nemenda.
„Við stelpurnar bara ákváðum að mæta í magabolum. Okkur finnst að þetta sé ekki eitthvað sem kennarar geta skipt sér af því þetta eru bara föt. Það ræður enginn hvernig við lítum út. En í dag mættum við allar í magabolum og nokkrir strákar líka. Það er eiginlega bara allt unglingastigið í magabolum í dag,“ segir Embla Margrét Særósardóttir, nemandi í tíunda bekk Háteigsskóla í samtali við mbl.is.
Hún segir að einn kennari hafi gagnrýnt stúlkurnar fyrir klæðaburðinn í dag og sagt að mótmæli sem þessi ættu sér ekki að eiga stað í skólanum. „Ég spurði hana af hverju og hún svaraði mér ekki,“ segir Embla.
Hún segir að þeir sem klæðist magabolum á skólatíma séu oft skammaðir af kennurum. Hafa sumir kennarar sagt að bolirnir væru truflandi fyrir aðra nemendur.
„En það hefur enginn spurt okkur hvort okkur finnist þetta truflandi,“ segir Embla en hún segir að margar stúlkur í skólanum klæðist magabolum dagsdaglega. „Við höfum verið gagnrýndar af kennurum, jafnvel ef það sést bara í smá rifu af maganum, þá erum við skammaðar.“
Að mati Emblu er það ekki hlutverk kennara að skipta sér að klæðaburði unglinga. „Þau mega segja okkur hvernig við eigum að haga okkur en þau eiga ekki að segja til um hvernig við eigum að líta út í skólanum. Við erum öll sammála um að þetta truflar engan nemanda.“
Þórður Óskarsson, aðstoðarskólastjóri Háteigsskóla segir að ekkert bann sé í gildi í skólanum gegn magabolum. Hann hefur þó heyrt af umræðunni og segir að á döfinni sé að funda með kennurum, foreldrum og nemendunum sjálfum um klæðaburð á skólatíma.
„Auðvitað geta svona bolir verið eitthvað truflandi eins og svo sem ýmislegt annað í klæðaburði. En við höfum ekkert verið að reyna að stjórna klæðaburði nemenda. Það hefur samt auðvitað komið fyrir að kennari geri athugasemdir um klæðaburð beint við nemanda,“ segir Þórður.
Aðspurður hvort það sé hlutverk kennara, að skipta sér af klæðaburði nemenda, segir Þórður það misjafnt eftir aðstæðum hverju sinni. „En nú fer umræða af stað um málið með þátttöku foreldra og nemendanna sjálfra.“
UPPFÆRT klukkan 16:40
Hér fyrir neðan má sjá bréf sem foreldrum barna á unglingastigi Háteigsskóla barst frá skólastjóra á fjóðra tímanum í dag.
Reykjavík, 25. september 2015
Ágætu foreldrar nemenda í 8. til 10. bekk
Undanfarna daga hefur orðið áberandi, meðal unglinganna bæði stúlkna og drengja, krafan um að þeir eigi að fá að vera í svokölluðum magabolum.
Okkur fullorðna fólkinu þykir þetta ekki viðeigandi klæðnaður í skóla. Þá koma til álita kynferðislegar vísanir slíks klæðnaðar en þó kannski öllu heldur að ekki er hægt að athafna sig með góðu móti í skólaumhverfi án þess að viðkomandi beri sig við eðlilegar hreyfingar.
Ég vil vekja á þessu athygli og óska eftir viðbrögðum frá foreldrum, því að ekki vil ég á þessari stundu gefa yfirlýsingu um bann við slíkum klæðnaði án þess að umræða fari fram meðal foreldra og barna.
Ég óska eftir því að allir foreldrar unglinga í Háteigsskóla taki sér tíma um helgina til að ræða þetta mál við börnin sín bæði drengi og stúlkur. Í næstu viku hef ég óskað eftir því að hver umsjónarkennari ræði málið í sínum bekk og þá er mikilvægt að foreldrar hafi tekið umræðuna heima hver fyrir sig.
Ástæða þess að ég leita til ykkar með þetta er að baráttan fyrir magabolum hefur valdið truflun á kennslu í gær og í dag.
Eftir umræður í bekkjum og viðbrögð ykkar mun ég beina öllum upplýsingum til skólaráðs Háteigsskóla sem tekur málið til umræðu en á þeim vettvangi hafa bæði nemendur og fulltrúar foreldra tækifæri til að tjá sig.
Með von um góðar undirtektir og ábendingar ef einhverjar eru.
Ásgeir Beinteinsson
skólastjóri Háteigsskóla