„Afdráttarlausari um minni losun“

Ef Ísland ákveður að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda getur það …
Ef Ísland ákveður að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda getur það falið í sér skógrækt. mbl.is/Árni Sæberg

„Trúverðugleiki Íslands eykst til muna í samningaviðræðunum um loftslagsmál ef að orð forsætisráðherra standa,“ segir Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, sagði í ræðu sinni í dag á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna um ný heimsmarkmið um sjálfbæra þróun á tímabilinu 2015 - 2030, að Ísland hefði skuldbundið sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40%.

Ísland hafði áður skuldbundið sig til að taka þátt í markmiði Evrópusambandsins, sem miðar að því að minnka losun um 40% ef samningar nást á loftslagsráðstefnunnni í París. Að mati Árna eru orð forsætisráðherra hins vegar til marks um afdráttarlausari skuldbindingu Íslands.

„Eftir Parísarfundinn setjast ríki Evrópusambandsins niður og ákveða sín á milli hversu mikið er dregið úr gróðurhúsalofttegundum í hverju landi fyrir sig. Ríkin geta með öðrum orðum ákveðið hver gerir mest og hverjir gera minna,“ segir Árni og bætir við að Noregur hafi sagt að óháð öðrum muni þeir draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem nemur 40%. „Við höfum sagt að við munum taka við svokölluðu „sanngjörnu hlutfalli“ þangað til núna, þegar forsætisráðherra segir að við munum draga úr losun um 40%, náist samningar.“

Viðmiðunarárið er 1990.

Ísland átti aðild að Kyoto-bókun númer tvö, sem aðili af sameiginlegri skuldbindingu Evrópusambandsins um 20% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda til 2020, en eftir samningaviðræður á milli ríkjanna þurfti Ísland aðeins að draga úr losun um 15% vegna sérstakra aðstæðna.

Súrnun sjávar gæti haft miklar afleiðingar á Íslandi

„Þetta skiptir miklu máli fyrir trúverðugleika Íslands þegar við reynum að ná áhrifum loftslagsbreytinga inn í samningana en eitt af stóru hagsmunamálum Íslands í því samhengi er súrnun sjávar,“ segir Árni.

Elín Hirst hefur ásamt öðrum þingmönnum úr öllum flokkum lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að Ísland smíði aðgerðaráætlun gegn súrnun sjávar á norðurslóðum. Í henni er lagt til að skipaður verði starfshópur sem rannsaki hvaða áhrif loftslagsbreytingar hafa á lífríki hafsins í kringum Ísland og til hvaða aðgerða þurfi að grípa til að sporna við þeim.

Í greinargerð tillögunnar segir m.a. „Að mati margra vísindamanna er Ísland á versta mögulega stað þegar súrnun sjávar er annars vegar, en mjög litlar rannsóknir fara fram hérlendis á afleiðingum hennar. Súrnun sjávar er í raun falinn fylgifiskur loftslagsbreytinga og útblásturs koltvísýrings (CO2) í andrúmsloftið. Þessi þróun hefur þegar haft áhrif á um­hverfið og kemur til með að hafa alvarlegar afleiðingar á vistkerfi hafsins og gæti haft skaðleg áhrif á lífsviðurværi milljóna manna sem reiða sig á sjávarútveg.“

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.
Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert