Baltasar: Fleiri kunna söguna en Krakauer

Jason Clarke, sem fór með aðalhlutverk í Everest, og Baltasar …
Jason Clarke, sem fór með aðalhlutverk í Everest, og Baltasar Kormákur. AFP

Baltasar Kormákur, leikstjóri Hollywood stórmyndarinnar Everest, er ósáttur við gagnrýni Jon Krakauer á mynd sína og segir hana lágu plani. „Hann virðist halda að hann eigi rétt á þessu slysi - telur sig eiga það. En þegar allt kemur til alls er hann bara að reyna að selja bókina sína,“ sagði Baltasar í samtali við RÚV.

Rithöfundurinn Jon Krakauer var með í förinni sem kvikmyndin Everest er byggð á. Í viðtali við Los Angeles Times segir Krakauer myndina vera bull og að ef fólk vilji sönnu söguna eigi það að lesa bókina sína, Into thin air.

Í viðtalinu er hann sagður sérstaklega ósáttur við atriði í kvikmyndinni þar sem Anatoli Boukreev kemur inn í tjaldið hans og biður hann um að hjálpa við björgunaraðgerðir. Svavar Krakeuer í myndinni því að hann geti ekki hjálpað vegna snjóblindu.

„Ég átti aldrei þetta samtal,“ sagði Krakauer og bætir við að Anatoli, sem leikinn er af Ingvari E. Sigurðssyni í kvikmyndinni, hafi farið í mörg tjöld og ekki einu sinni sjerparnir hefðu getað farið út. „Ég er ekki segja að ég hefði getað það, eða hefði gert það. Það sem ég er að segja er að enginn kom inn í tjaldið mitt og spurði.“

Þurfti að umskrifa bókina sína

Í tilkynningu sem Baltasar sendi Los Angeles Times vegna viðtalsins segir hann að margar bækur  hafi verið skrifaðar um leiðangurinn árið 1996. Kvikmyndagerðarmenn sem gerðu Everest höfðu aðgang að talstöðvarsamskiptum sem fram fóru á milli Adventure Consulant búðanna og þeirra sem voru á fjallinu. 

Baltasar segir að fjölmargir sem voru í leiðangrinum hafi komið að gerð myndarinnar, ýmist með því að veita upplýsingar eða sem ráðgjafar á meðan á tökum stóð. Nefnir hann Helen Wilton, grunnbúðarstjóra Adventure Consulant, Carol Mackenzie, lækni, og þá Guy Cotter og David Breashears í því samhengi. Þeir tveir síðastnefndu voru ráðgjafar á meðan á tökum stóð.

„Handritshöfundarnir og ég reyndum að draga upp mynd af hlutunum frá hlutlægu sjónarhorni,“ segir Baltasar. Reynt hafi verið að útskýra fyrir áhorfendum hvernig ákvarðanir voru teknar í þeim aðstæðum sem voru í leiðangrinum.

„Ætlunin með senunni í tjaldi Krakauer var að sýna hversu hjálparlaust fólk var og hvers vegna það gat ekki farið út og hjálpað,“ segir Baltasar og bætir við: „Þau voru ekki illgjörn, þau voru bjargarlaus.“

Vísar Baltasar einnig til skrifa Krakauer í metsölubókinni. Þar sem Krakauer að Anatoli hefði sýnt af sér mikinn hetjuskap þegar hann fór og bjargaði þeim Sandy Pittman og Charlotte Fox. 

„Ég dáist að honum fyrir að fara einn út í storminn þegar við hin lágum bjargarlaus í tjöldum okkar, og kom með týndu fjallgöngumennina,“ skrifaði hann.

Á vef RÚV er einnig haft eftir Baltasari að þó Krakauer hafi verið á fjallinu þegar slysið varð sé hann ekki sá eini sem viti hvað gerðist. Into Thin Air hafi verið umdeild meðal fjallgöngumanna og um hana hafi verið rifist.

„Hann þurfti að umskrifa hana þar sem hann ruglaðist á fjallgöngumönnum,“ segir Baltasar í samtali við RÚV.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert