Næstu skref löggjafans skoðuð

Dómnefnd til að fjalla um hæfni umsækjenda um embætti hæstaréttardómara …
Dómnefnd til að fjalla um hæfni umsækjenda um embætti hæstaréttardómara og héraðsdómara er skipuð fimm körlum. Brynjar Gauti

Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, segir að nefndin muni koma saman eftir kjördæmaviku, þann 6. október, til þess að skoða með hvaða hætti löggjafinn þarf að grípa inn þannig að dómnefnd sem fjallar um hæfni umsækjenda um embætti hæstaréttar- og héraðsdómara verði ekki aðeins skipuð körlum, líkt og nú.

Segir hún að svo virðist sem kynjahlutföllum í dómnefndinni verði ekki breytt án aðkomu löggjafans. Fimm karlar sitja nú í dómnefndinni, tveir tilnefndir af Hæstarétti, einn tilnefnur af dómstólaráði, einn tilnefndur af Lögmannafélagi Íslands og einn kosinn af Alþingi.

Unnur segir að bréfaskrif liggi fyrir á milli innanríkisráðuneytisins, Hæstaréttar, dómstólaráðs og Lögmannafélags Íslands þar sem ráðuneytið hvatti aðila til að skipa konu í dómnefndina.

Allsherjar- og menntamálanefnd hyggst kalla fyrir nefndina fulltrúa frá Lögmannafélaginu, dómstólaráði og Hæstarétti að sögn Unnar. Hún segir það hins vegar vera í höndum Ólafar Nordal, innanríkisráðherra, að ákveða hvort innanríkisráðherra leggi til við þingið að Ingveldur Einarsdóttir verði skipuð í Hæstarétt þvert á álit dómnefndarinnar.

Lög­manns­reynsla og reynsla af stjórn­sýslu- og dóm­störf­um voru helstu ástæður þess að Karl Ax­els­son var tal­inn hæf­ari en tveir aðrir um­sækj­end­ur til að gegna starfi hæsta­rétt­ar­dóm­ara að mati dóm­nefnd­ar, jafn­vel þó að hinir tveir um­sækj­end­urn­ir hefðu meiri mennt­un og reynslu sem dóm­ar­ar.

Af tíu skipuðum hæstaréttardómurum er aðeins ein kona

Í grein Ragnhildar Helgadóttur, forseta lagadeildar Háskólans í Reykjavík, sem kemur út í Tímariti HR í október, kemur hún inn á að 20 af 43 héraðsdómurum eru konur, en af tíu skipuðum hæstaréttardómurum er aðeins ein kona. Staðan sé því sú að eftir því hvernig skipað verður í þá stöðu sem nú er laus, verða annað hvort 10 eða 20 prósent dómara við æðsta dómstól landsins konur. 

Ragnhildur segir afar mikilvægt að konur jafnt sem karlar, sem þurfa að leita til dómstóla til að fá úrlausn mála sem skipta þau miklu, geti speglað sig í réttinum. 

„Það er mikilvægt að ungir sem gamlir, með mismunandi lífsreynslu og mismunandi hæfileika til að sjá það sem fólk á sameiginlegt, geti haft traust á réttinum. Og rétt eins og í tilfelli Alþingis, skiptir máli að það sjáist að konur jafnt sem karlar taki ákvarðanir á æðstu stöðum.“

Nefndin endurskoðuð með tilliti til kynja

Karl Garðarsson, nefndarmaður í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis, er almennt þeirrar skoðunar að velja eigi hæfasta einstaklinginn. 

„Ef óháð nefnd velur Karl Axelsson hæfastan, þá tel ég að það eigi að velja hann. Tilgangurinn með svona nefndum er að taka þessa hluti frá ráðherra og pólitíkinni svo ekki sé verið að skipta sér af vali jafn mikilvægs máls og skipun hæstaréttardómara er,“ segir Karl og bætir við að honum þyki umræðan um að færa eigi þetta yfir til ráðherra vera undarleg.

„Að þessu sögðu, þá ber auðvitað að horfa til kynjamála líka í þessu. Þetta er bara þannig starf, gríðarlega mikilvægt er að fá þann sem er bestur að hverju sinni,“ segir hann.

Karl útilokar ekki að það kunni að hafa haft áhrif á niðurstöðu dómnefndar að hún hafi aðeins verið skipuð körlum. Segir hann að breyta þurfi skipan dómnefndarinnar þannig að hún verði ekki aðeins skipuð körlum.

„Það er erfitt að hrófla við þessari niðurstöðu, hún er komin. En ég tel að það eigi að endurskoða nefndina til framtíðar með tilliti til kynja.“

Í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag skrifar Reimar Pétursson, formaður Lögmannafélags Íslands, að dómnefnd megi ekki láta hæfnismat ráðast af kynferði. Slíkt rýri traust dómstóla en skipun þess hæfasta auki það. 

Í lögum segi að velja skuli konu ef hún teljist jafnhæf karli til starfsins. „Konum í Hæstarétti mun því fjölga þegar fram í sækir,“ segir í grein Reimars.

Unnur Brá Konráðsdóttir.
Unnur Brá Konráðsdóttir.
Karl Garðarsson.
Karl Garðarsson.
Reimar Pétursson, formaður Lögmannafélags Íslands.
Reimar Pétursson, formaður Lögmannafélags Íslands. Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka