40% með Evrópusambandinu

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, segir að ræða forsætisráðherra á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna í gær marki ekki stefnubreytingu í loftslagsmálum. 

Þetta er ekki einhliða yfirlýsing um 40% lækkun af Íslands hálfu heldur markmið um 40% lækkun í samfloti með Evrópusambandinu,“ segir Jóhannes Þór.

Hann segir að stjórnvöld á Íslandi hyggist enn taka við „sanngjörnu hlutfalli“ af heildarminnkun losunar gróðurhúsalofttegunda á Evrópusambandssvæðinu en hafi ekki skuldbundið sig til þess að draga úr losun um 40%. 

Forsætisráðherra sagði í ræðu sinni að Ísland hefði „nýlega heitið því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% fyrir árið 2030“, en í samtali við mbl.is sagði Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, að orð forsætisráðherra væru afdráttarlausari um skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum en áður.  

„Við höf­um sagt að við mun­um taka við svo­kölluðu „sann­gjörnu hlut­falli“ þangað til núna, þegar for­sæt­is­ráðherra seg­ir að við mun­um draga úr los­un um 40%, ná­ist samn­ing­ar,“ sagði Árni í gær, en samkvæmt aðstoðarmanni Sigmundar er ekki um að ræða þá stefnubreytingu sem orð ráðherra á leiðtogafundinum virðast gefa til kynna.

Sjá frétt mbl.is um málið: „Afdráttarlausari um minni losun“

ESB horfir til þess að minnka heildarlosun gróðurhúsalofttegunda um 40% á svæðinu náist samningar á loftslagsráðstefnunni í París í haust. Taki Íslendingar við „sanngjörnu hlutfalli“ af þeirri minnkun, hafa stjórnvöld  svigrúm til þess að semja við ESB um hversu stór hluti Íslendinga verður.

Raforkustöð á Bretlandi, þar sem kolum er brennt. Hlutfall Íslands …
Raforkustöð á Bretlandi, þar sem kolum er brennt. Hlutfall Íslands í losunarmarkmiðum mun velta á samkomulagi við önnur Evrópuríki. AFP

Vegna sérstakra aðstæðna hér á landi, þá einkum og sér í lagi vegna þess hversu stórt hlutverk endurnýjanlegir orkugjafar spila á Íslandi, hefur hingað til verið litið svo á að Íslendingar þurfi að draga hlutfallslega minna úr losun heldur en flest önnur lönd ESB. Ísland hefur verið í samfloti með ESB í Kyoto bókun númer tvö um 20% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda til ársins 2020 en hér á landi þarf aðeins að draga úr losun um 15%.

Þannig getur skipt máli hvort orðalagið er notað, þ.e. hvort Ísland ætli sér að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% eða hvort sanngjarnt hlutfall af 40% heildarminnkun losunar Evrópusambandsins sé á ábyrgð Íslands.

Norðmenn hafa gengið skrefinu lengra og sagst ætla að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% óháð niðurstöðum Parísarfundarins.

Í ræðu sinni vék forsætisráðherra einnig að mikilvægi þess að standa vörð um skynsamlega nýtingu og stjórn á náttúruauðlindum lands og sjávar. Talið er að aukin kolefnisbinding sjávar, eða súrnun sjávar sem er bein afleiðing af auknu magni gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu, geti haft áhrif á vistkerfi við Íslandsstrendur.

Hugi Ólafsson, skrifstofustjóri í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, segir að Parísarfundurinn muni ekki taka beint á súrnun sjávar en að besta leiðin til þess að takast á við það vandamál sé einfaldlega að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert