Formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna segir ráðningarsamning, sem félagið fékk frá Vinnumálastofnun til umsagnar, vera dæmi um nútíma þrælahald. „Með honum er verið að flytja inn réttlausa einstaklinga til þess að sinna störfum hér á landi langt undir lágmarkskjörum íslenskra kjarasamninga.“
Formaðurinn, Guðmundur Ragnarsson, segir í samtali við mbl.is að um sé að ræða samning erlendrar starfsmannaleigu við starfsmann sem komið hafi hingað til lands til að starfa á hennar vegum.
Í grein sem birtist eftir Guðmund á heimasíðu félagsins í kvöld segir hann mál þessi í algjörum ólestri og að stjórnvöld verði að bregðast við af ábyrgð og festu.
„Margir af þeim einstaklingum sem við höfum fundið hafa verið við störf hér á landi svo mánuðum skiptir án þess að vera skráðir hjá Vinnumálastofnun eins og lög kveða á um,“ segir Guðmundur.
„Þess vegna eru ekki greiddir skattar vegna launa þessara einstaklinga og heldur ekki ýmis lögbundin gjöld. Alls óvíst er hversu margir starfa hérna óskráðir og þar með án allra réttinda á vegum slíkra starfsmannaleiga.“
Þá segir hann það gott að Íslendingar beiti sér mikið fyrir mannréttindum um allan heim.
„Við virðumst hins vegar vera til í að fá ódýrt og réttlaust vinnuafl hingað til lands, án þess að vilja nokkuð með það hafa. Við þurfum með öðrum orðum ekki að fara til útlanda til að beita okkur fyrir mannréttindum. Þau eru hér í garðinum heima, á íslenskum vinnumarkaði.“