„Það hafa allir séð nafla áður“

Fjölmenni var við Druslugönguna í sumar.
Fjölmenni var við Druslugönguna í sumar. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Einn af skipuleggjendum Druslugöngunnar segir að viðbrögð skólayfirvalda í Háteigsskóla við notkun ungra stúlkna á magabolum á skólatíma séu fáránleg. Eins og fram kom á mbl.is á föstudaginn mættu fjölmargir nemendur við unglingastig skólans í magabol í skólann til þess að mótmæla því að stúlkur séu reglulega skammaðar fyrir að klæðast magabolum. Skólastjóri Háteigsskóla, Ásgeir Beinteinsson, sendi í kjölfarið út bréf til foreldra þar sem hann sagði að starfsfólki skólans þyki bolirnir vinsælu ekki viðeigandi klæðnaður í skóla og nefnir kynferðislegar vísanir „slíks klæðnaðar“ í því samhengi. Sunna Ben, einn af skipuleggjendum Druslugöngunnar segir að með þessum viðbrögðum séu skólayfirvöld að gera eitthvað skrýtið og erfitt sem þurfi ekki að vera það.

Fyrri frétt mbl.is: „Það ræður því enginn hvernig við lítum út“

„Mér finnst þetta alveg stórkostlega fáránlegt. Það að vera í raun að setja það í hendur ungra barna að hafa áhyggjur af því hvort að einhverjum öðrum finnist þau kynþokkafull og að magabolirnir séu vísun í eitthvað kynferðislegt er algjörlega fáránlegt,“ segir Sunna í samtali við mbl.is. „Ef að fullorðnu fólki finnst börn klæða sig of „sexy“ hvers vandamál er það? Þetta er bara tíska eins og hver önnur og magabolir hafa oft komið í tísku áður. Maginn er ekki kynfæri eða eitthvað sem við erum vön að þurfa að fela,“ segir Sunna.

Henni finnst skrýtið að skólayfirvöld séu á móti því að stúlkur klæðist magabolum á skólatíma. „Þarna er verið að gera eitthvað skrýtið og erfitt sem þarf ekki að vera það. Þetta er bara fatatíska eins og hver önnur og ekkert sérstaklega ögrandi miðað við allskonar annað sem hefur áður verið,“ segir hún og nefnir sýnilega g-strengi, sem voru í tísku snemma á síðasta áratug,  sem dæmi.

Alltaf meira gert úr klæðaburði stelpna

Með viðburðum eins og Druslugöngunni og Free The Nipple hefur skapast opin umræða í þjóðfélaginu um drusluskömm, kynferðisofbeldi og frelsi kynjanna. Aðspurð hvort að viðbrögð skólayfirvalda í Háteigsskóla séu í öfuga átt við umræðu síðustu missera svarar Sunna því játandi. „En málið er að þetta er vekja athygli og sýnir að þetta er ekkert svona allstaðar. Ég held að þarna sé einn skóli sem er illa staddur og ekki alveg búinn að velta þessu fyrir sér áður en hann kemur einhverju mjög furðuleg í aðgerð,“ segir Sunna.

Hún veit ekki hvort að viðbrögðin væru öðruvísi væru magabolir í tísku hjá strákum. „En það hefur alltaf gert meira úr því hvernig stelpur klæða sig og að þær eigi að hafa áhyggjur og fela sig og skammast sín, sem er ótrúlega óréttlátt og ljótt. Ég hef allavega aldrei heyrt neinn hafa svona áhyggjur af því að strákar séu að vera of sexy fram á gangi.“ Hún segir að það eigi að fagna því þegar að stúlkur vilji ganga í magabolum. „Líkamsáhyggjur kvenna er bara bara risastórt vandamál og við ættum að vera mjög sátt með að þær séu ánægðar með líkama sinn og vilja ganga í magabolum. Það hafa allir séð nafla áður og ég held að það sé enginn að fríka út yfir því.“

Gott þegar krakkar láta í sér heyra

Hún segir að krakkarnir sem skipulögðu mótmælin á föstudaginn í Háteigsskóla hafi haft samband við aðstandendur Druslugöngunnar í síðustu viku. „Þetta var alveg ótrúlega flott framtak og við þökkum þeim alveg 100% fyrir þetta. Mér fannst alveg frábært hversu margir tóku þátt. Það er svo gott hjá þeim að láta í sér heyra."

Sunna Ben er einn af skipuleggjendum Druslugöngunnar.
Sunna Ben er einn af skipuleggjendum Druslugöngunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Stór hópur unglinga í Háteigsskóla klæddist magabolum í skólanum á …
Stór hópur unglinga í Háteigsskóla klæddist magabolum í skólanum á föstudaginn en stúlkur í skólanum hafa verið skammaðar fyrir klæðaburðinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka