Helgi Björnsson, bóndi og frumkvöðull á Kvískerjum, lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Hornafirði 27. september, níræður að aldri.
Helgi fæddist 2. febrúar 1925 og var hann sonur hjónanna Björns Pálssonar, bónda á Kvískerjum, f. 1879, d. 1953, og Þrúðar Aradóttur húsfreyju, f. 1883, d. 1968.
Helgi þótti einstakur hagleiksmaður og lék allt í höndunum á honum. Hann var góður teiknari, uppfinningamaður og frumkvöðull. Helgi fann upp ýmis tæki og smíðaði verkfæri sem léttu mönnum lífið. Nefna má rennibekk, hverfil fyrir rafstöðina á bænum og eins tæki sem auðveldaði rúning fjár og gerði hann fljótlegri.
Hann smíðaði svonefnt engjahús sem trúlega var fyrsta hjólhýsið sem smíðað var hér á landi. Auk þess setti hann stór flugvéladekk á dráttarvél svo hún skemmdi ekki túnin. Þá var Helgi listasmiður og smíðaði hann m.a. skírnarfontinn í Hofskirkju.
Hann var jöklamælingamaður og fylgdist vel með breytingum á jöklum á sínum heimaslóðum um áratuga skeið. Helgi byrjaði að fara með Flosa bróður sínum til jöklamælinga og tók við af honum.
Systkini Helga voru Flosi, f. 1906, d. 1993. Hann var sjálfmenntaður jökla- og náttúrufræðingur og mikill tungumálamaður. Guðrún eldri, f. 1908, d. 1991. Hún sinnti mikið heimilisstörfum á Kvískerjum og hafði yndi af bóklestri og útiveru. Ari, f. 1909, d. 1982, starfaði mikið við búskapinn á Kvískerjum. Guðrún yngri, f. 1910, d. 1999. Hún fór á húsmæðraskóla á Laugarvatni og sinnti mikið heimilisrekstrinum, gestamóttöku og var hannyrðakona. Páll, f. 1914, d. 1993, organisti Hofskirkju um nær 60 ára skeið. Sigurður f. 1917, d. 2008, alkunnur félagsmála- og fræðimaður. Ingimundur, f. 1921, d. 1962, vann mikið við búskapinn. Hálfdán, f. 1927, sjálfmenntaður náttúrufræðingur og fræðimaður.
Uppeldissystir þeirra systkina var Finnbjörg Guðmundsdóttir.