Byggja stærsta hótel landsins

Hlíðarendasvæðið sem Valsmenn eiga. Hótelið á að rísa á reitnum …
Hlíðarendasvæðið sem Valsmenn eiga. Hótelið á að rísa á reitnum sem er efst á myndinni, næst Hringbraut.

Á næsta ári er gert ráð fyrir að bygging hefjist við nýtt hótel í Vatnsmýrinni, á horni Nauthólsvegar og Hringbrautar á svæði Valsmanna. Það er félagið S8 ehf sem stendur á bak við bygginguna, en eigandi þess er Jóhann Halldórsson. Félagið hefur undanfarin ár staðið í fasteignarekstri og á meðal annars húsnæði Íslenskrar erfðagreiningar.

Í kvöldfréttum Rúv var greint frá því að um væri að ræða um 18 þúsund fermetra byggingu og að heildarfjárfesting væri um 8 milljarðar. Í samtali við mbl.is staðfestir Jóhann að leyfilegt byggingarmagn ofanjarðar á reitnum sé um 17.500 fermetrar og gerir hann ráð fyrir að þetta verði stærsta hótel landsins.

Segir hann að gert sé ráð fyrir á bilinu 300-400 herbergjum, en til samanburðar er hótelið við Höfðatorg með 342 herbergi og 17 þúsund fermetrar. Jóhann segir að S8 muni ekki reka hótelið, heldur verði fundinn annar aðili í það. S8 muni aðeins reisa og eiga bygginguna.

Fjármögnun hefur ekki enn verið lokið, en Jóhann segir að það muni ráðast m.a. af því hvaða aðilar komi til með að reka hótelið. Segir hann að ef það verði erlend hótelkeðja verði fjármögnunin t.d. ekki neitt vandamál og mögulegt að fjármagn geti komið að utan. Segir hann aðspurður að verkefnið eigi sér mjög langan aðdraganda.

Hlíðarendi. Mikil uppbygging er áformuð vestan undir Öskjuhlíð.
Hlíðarendi. Mikil uppbygging er áformuð vestan undir Öskjuhlíð. Tölvuteikning/Alark
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert