Eldri borgarar noti skúringaróbóta

Hátt í sextíu eldri borgarar í einu hverfi Reykjavíkurborgar hafa …
Hátt í sextíu eldri borgarar í einu hverfi Reykjavíkurborgar hafa fengið skilaboð á síðustu dögum um skerta þjónustu. Ómar Óskarsson

Hátt í sextíu eldri borgarar í Háaleiti, Laugardal og Bústaðahverfi í Reykjavík fá ekki lengur heimsókn frá heimaþjónustu borgarinnar sem staðið hefur þeim til boða einu sinni til tvisvar í mánuði.

Þetta er afleiðing bágrar fjárhagsstöðu borgarinnar og munu nú aðeins þeir sem enn dvelja heima og eru veikastir fá aðstoð. Aðrir verða að leita til ættingja eða kaupa þjónustuna á almennum markaði.

Deildarstjóri þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis segir þjónustuna geta skipt miklu fyrir fólkið, til að mynda fyrir sjálfsvirðingu þess. Starfsfólkið sé síður en svo ánægt að þurfa að skerða þjónustuna á þennan hátt en nú sé komið að þolmörkum.

Bendir hún á að tækni á borð við ryksugu- og skúringaróbóta geti einhverju leyti komið í stað þjónustunnar sem felld hefur verið niður.  

Bent á að hafa samband við börnin

mbl.is barst ábending frá eldri borgara í einu af ofantöldum hverfum sem hefur hingað til fengið heimaþjónustu einu sinni í mánuði. Hann átti von á heimsókn starfsmanns á næstu dögum en þarf nú að leita annað, eða hafa samband við börn sín líkt og starfsmaður þjónustumiðstöðvarinnar benti honum á að gera.

Sigrún Ingvarsdóttir, deildarstjóri þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis, segir að þjónustumiðstöðin hafi aðeins ákveðinn fjárhagsramma til að veita þjónustu í hverfunum og þegar hafi verið farið yfir fjárheimildir.

„Heimaþjónusta hefur verið að aukast til þeirra sem eru veikastir þannig að notendum sem fá þjónustu hefur ekki fjölgað, heldur er veikara fólk heima og við höfum látið það ganga fyrir,“ segir hún í samtali við mbl.is.

Sigrún segist ekki sjá fram á að fá aukið fjárframlag og því þurfi að grípa til hagræðingaraðgerða. Ekki verður gripið til uppsagna heldur verður starfsfólk fært til þannig að aðeins þeim veikustu verði sinnt og mun það bitna á þeim sem hafa verið að fá minnstu þjónustuna.

Veikasta fólkið þarf fleiri innlit

Sigrún bendir á að þeir sem eru veikastir þurfi fleiri innlit og meiri viðveru. Þá hafi stefnan verið sú að fólk geti verið heima sem lengst og verið sé að bregðast við því. „Við höfum verið að sjá frá því að borgin tók yfir heimahjúkrun árið 2009 en frá þeim tíma hefur jafn og þétt aukist að fólk sé veikara heima og útskrifist fyrr af spítala,“ segir hún.

Hingað til hafi verið hægt að bregðast við ástandinu en nú sé komið að þolmörkum. „Við höfum langt áherslu á að veita þjónustu til þeirra sem eru veikastir en það er ekki þar með sagt að þau sem þurfi minni þjónustu séu ekki í þörf fyrir þjónustu. Heldur er það þjónusta sem auðveldara er að nálgast á almennum markaði,“ segir Sigrún.

Niðurskurðurinn hefur einskorðast við Háaleitið síðustu daga en bendir Sigrún á að hans gæti orðið vart víðar næstu daga, jafnvel í öðrum hverfum borgarinnar. Hingað til hafa hátt í sextíu manns fengið tímtal frá þjónustumiðstöðinni um að þjónustan sé ekki lengur í boði.

Ryksuga, skúra og þrífa baðherbergi

Aðstoðin sem fólkið hefur fengið getur skipt sköpum að sögn Sigrúnar. „Við horfum á að skerða síður þjónustu hjá þeim sem eiga litlar aðrar bjargir, geta keypt sér þjónustu annars staðar eða eiga góða að. Þetta skiptir mjög miklu fyrir sjálfsvirðingu hjá fólki að halda hreinu í kringum sig, að geta boðið fólki heim og líða vel á heimili sínu í hreinu umhverfi,“ segir hún.

„Það er svo margt sem ættingjar eru að aðstoða með, fara til læknis eða í búðina, eitthvað sem við höfum síðar komið að þegar ættingjar eru. Þarna er þetta að bætast við, þetta er ekkert sem við erum mjög hress yfir að þurfa að skerða,“ segir Sigrún.

Aðstoðin felst aðallega í almennum heimilisþrifum, líkt og að ryksuga og skúra heimilið og þrífa baðherbergi. Þá hafa sumir fengið aðstoð við að skipta á rúmum. „Þeir sem er verið að skerða hjá hafa getað haldið heimilinu við á milli heimsókna,“ segir Sigrún. Skerðingin nær til hátt í sextíu eldri borgara en þrátt fyrir það segir hún að viðbrögðin hafi verið ótrúlega lítil.

Hægt að nota ryksugu- og skúringaróbóta

Að mati Sigrúnar þarf að vera hægt að hugsa heimaþjónustuna upp á nýtt. Á Íslandi hafi margir fengið þjónustu en minna til hvers á eins. Hún nefnir Norðurlöndum sem dæmi og segir að þar hafi ýmislegt breyst í þesum málum. Í Svíþjóð fái til að mynda mun lægra hlutfall af eldri borgunum heimaþjónustu. Þeir sem fái þjónustu fái aftur á móti mikla þjónustu.

„Þetta er aðeins að breytast hjá okkur núna. Svo má líka hugsa hvaða tæki eru komin ný inn, til dæmis ryksugu- og skúringaróbótar. Þetta hefur minna verið tekið í notkun og ætti að geta létt heilmikið þjónustu,“ segir Sigrún. Hún bætir við að hugsa þurfi út fyrir rammann því í framtíðinni verði ekki hægt að sinna heimaþjónustu að öllu leyti vegna hærra hlutfalls eldri borgara.

„Við þurfum að horfa til þess hvort við getum notað meiri tækni til þess að sjá um þó þennan þátt, þessi þrif og veitt betri mannlegri þjónustu til þeirra sem eru fastir heima við,“ segir Sigrún að lokum.

Þjónustan skiptir sköpum fyrir fólkið.
Þjónustan skiptir sköpum fyrir fólkið. Ómar Óskarsson
Starfsfólkið hefur aðstoðað við ýmis þrif á heimili fólksins einu …
Starfsfólkið hefur aðstoðað við ýmis þrif á heimili fólksins einu sinni til tvisvar í mánuði. Ómar Óskarsson
Sífellt fleiri eru útskrifaðir fyrr af sjúkrahúsi og dvelja veikir …
Sífellt fleiri eru útskrifaðir fyrr af sjúkrahúsi og dvelja veikir og ósjálfbjarga heima. Ernir Eyjólfsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert