Niðurstöðurnar eiga vel við Ísland

Hrísgrjón eru m.a. notuð í sushi.
Hrísgrjón eru m.a. notuð í sushi. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Skýrsla sænsku matvælastofnunarinnar Livs­medels­verketsem sem birt var í dag hefur vakið athygli en þar er sagt frá framhaldsrannsókn á hrísgrjónum vegna arsensinnihalds. Þegar að vörur sem innihalda hrísgrjón voru skoðaðar í Svíþjóð kom í ljós að arsen-magnið er það mikið að Livs­medels­verket breytti viðmiðum sín­um  og er ekki mælt með því að börn borði hrís­grjón eða vör­ur gerðar úr hrís­grjón­um oft­ar en fjór­um sinn­um í viku. Börn­um hef­ur þar að auki verið ráðlagt að sleppa því al­veg að borða hrís­kök­ur. Einnig er mælt með því að fullorðnir minnki neyslu á hrísgrjónum séu þau stór hluti að matarræði.

Fyrri frétt mbl.is: Ráðleggja börnum að sleppa hrískökum

Ingibjörg Jónsdóttir, sérfræðingur hjá Matvælastofnun, segir að niðurstöður Livsmedelsverket eigi vel við hér á landi enda borða Íslendingar sömu hrísgrjónavörur og Svíar að miklu leyti.

Hún segir það nokkuð eðlilegt viðmið að mæla gegn neyslu barna á hrísgrjónum oftar en fjórum sinnum í viku. „Það eru þó einstaka börn sem gætu verið að borða hrískökur oftar. En svo eru líka ákveðnir minnihlutahópar sem hafa hrísgrjón að uppistöðu í fæðu sinni sem eru frekar í hættu.“

Að sögn Ingibjargar ætlar Evrópusambandið að setja hámarksgildi á arseni sem mun væntanlega taka gildi í janúar 2016. Sú reglugerð mun svo verða innleidd hérlendis í kjölfarið. „Þá er hægt að bregðast við ef það kemur í ljós að eitthvað er hærra en það. En við munum leggjast yfir þessar skýrslur sem gefnar voru út í dag og skoða hvort það sé ástæða að gefa út ráðleggingar eins og við gerðum árið 2013 með barnamatinn og hrísmjólkina,“ segir Ingibjörg og vísar í ráðleggingar frá Matvælastofnun þar sem foreldrum var m.a. ráðlagt að gefa börnum undir sex ára aldri ekki drykki úr hrísgrjónum vegna arseninnihalds þeirra.

Hún segir þó að ef ráðleggingar verði gefnar út vegna nýjustu rannsóknarinnar yrðu þær mun víðtækara en árið 2013 enda var þá aðeins verið að hugsa um börn undir sex ára aldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert