Hrísgrjón innihalda það mikið arsenik að Livsmedelsverket, matvælastofnun Svíþjóðar, hefur nú breytt viðmiðum sínum og er ekki mælt með því að börn borði hrísgrjón eða vörur gerðar úr hrísgrjónum oftar en fjórum sinnum í viku. Börnum hefur þar að auki verið ráðlagt að sleppa því alveg að borða hrískökur. Þetta kemur fram á vef sænska ríkissjónvarpsins, SVT.
Arsenik í hrísgrjónum komst í umræðuna snemma árs 2013 í kjölfar sænskrar rannsóknar. Nú hefur Livsmedelsverket rannsakað 102 vörur sem innihalda hrísgrjón og fást í matvöruverslunum í Svíþjóð. Í ljós kom að í mörgum þeirra var hlutfall arseniks of hátt.
„Við vissum að það er arsenik í hrísgrjónum. En það sem við vitum núna er að sumar vörur á markaðinum eru með nokkuð hátt hlutfall. Við höfum m.a. ráðlagt að börn undir sex ára aldri borði ekki hrískökur. Við hin getum borðað hrískökur við og við en það fer eftir því hversu mikið af hrísgrjónum við borðum almennt,“ sagði Emma Halldin Ankarberg, eiturefnafræðingur hjá Livsmedelsverket í samtali við sænska ríkissjónvarpið.
Að sögn Ankarberg er nú ekki mælt með því að börn borði hrísgrjón eða vörur gerðar úr hrísgrjónum oftar en fjórum sinnum í viku. Vörur úr hrísgrjónum er til að mynda grjónagrautur, hrísgrjónanúðlur og morgunkorn sem innihalda hrísgrjón.
Fullorðnir geta borðað meiri hrísgrjón en börn. En þeir sem borða hrísgrjón oftar en sjö sinnum í viku ættu að draga úr neyslunni. „Ef þú borðar mikið af hrísgrjónum er gott ef þú minnkar það. Ef þú borðar hrísgrjón bara nokkrum sinnum í viku, eins og margir í Svíþjóð, þarftu ekki að hafa áhyggjur,“ sagði Ankarberg.
Samkvæmt frétt SVT finnst arsenik helst í berggrunni og grunnvatni sem notað er við ræktun á hrísgrjónum. Grjónin binda arsenið auðveldlega í sig við ræktun.
Að sögn Aknarberg getur mikil hrísgrjónaneysla valdið sjúkdómum eins og lunga- og blöðrukrabbameini. Livsmedelsverket hefur greint frá því að lífræn hrísgrjón innihaldi eins mikið arsenik og þau sem ekki eru ræktuð lífrænt. Brún hrísgrjón eru með hærra hlutfall arseniki heldur en basmati- og jasmínhrísgrjón.