Eiga ekki að vera dómarar vegna kyns

Þétt setið málþing Orators.
Þétt setið málþing Orators. mbl.is/Styrmir Kári

„Er Hæstiréttur undanþeginn jafnréttislögum?“ Þetta var yfirskrift málþings sem Orator, félag laganema við Háskóla Íslands, hélt í dag. Á málþinginu töluðu Skúli Magnússon, formaður Dómarafélags Íslands og dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður og Kristrún Elsa Harðardóttir, héraðsdómslögmaður og formaður Félags kvenna í lögmennsku.

Skúli reið á vaðið í yfirfullum sal í Lögbergi og áhugi á viðfangsefni málþingsins var greinilega mikill eins og sjá mátti á mætingu. Skúli gerði þann fyrirvara við erindi sitt að hvorki Dómarafélagið í heild né stjórn þess hafi tekið skipun nefndar sem metur hæfi dómara til sérstakrar skoðunar, þannig að hann væri eingöngu að lýsa eigin skoðunum í erindi sínu.

Hann sagði spurninguna í yfirskriftinni býsna óljósa og í raun og veru villandi í þeirri umræðu sem verið hefur um skipan hæstaréttardómara. Hann sagði að miklu frekar þyrfti að skoða hvort skipun hæstaréttardómara sé eitthvað sem falli undir jafnréttislög.

Hann sló því föstu að ákvæði jafnréttislaga gildi fullum fetum um Hæstarétt. Því beri að velja umsækjanda af því kyni sem hallar á, að því gefnu að umsækjendur séu jafnhæfir. Kona eigi því að sögn Skúla að hafa forgang umfram karl séu þau metin jafnhæf, og sagði að það hafi í reynd gerst.

Sammála gagnrýni á skipan nefndarinnar

Skúli sagði mikið gert úr því að dómnefndin sé einungis skipuð körlum. Hann sagðist sammála þeirri gagnrýni um að sú skipun væri óheppileg, og að sú lagatúlkun sem liggi þessu ástandi til grundvallar, það er að einungis karlmenn hafi verið skipaðir í nefndina, sé ekki hafin yfir gagnrýni. Sú lagatúlkun sem hann vísar til með þeim orðum er í þá veru að dómstólalög séu sérlög gagnvart jafnréttislögum.

Hann sagði þá stöðu sem uppi er núna í raun hafa verið við lýði allt frá árinu 2010, í heil fimm ár. Þannig hafi verið nægur tími fyrir ráðherra eða þá Alþingi að ráða bót á þeirri stöðu sem nú sé uppi. Alþingi hefði síðastliðið ár tilnefnt einn karl í nefndina og nefndin þar með orðið hrein karlanefnd. Þess vegna þótti honum sæta furðu að þingmenn hefðu sig í frammi og gagnrýndu þá stöðu sem upp er komin.

Skúli sagðist auk þess ekki hafa séð neinn sannfærandi rökstuðning fyrir því að konur hafi borið skarðan hlut frá borði í meðförum nefndarinnar sem meti hæfi umsækjenda, eða að hún hafi kerfisbundið mismunað á grundvelli kynferðis. Með því væri þó hvorki sagt að allar konur hefðu fengið sanngjarna meðferð né lýst yfir ánægju með störf nefndarinnar.

„Við eigum að stuðla að því,“ sagði Skúli, „að samsetning stofnunar eins og Hæstaréttar sé fjölbreytt. Glaðbeitt tal um að Hæstiréttur eigi að endurspegla samfélagið stenst auðvitað ekki nánari skoðun. En við getum reynt að stuðla fjölbreytni með ýmsum hætti.“

Ekki komin í öngstræti

Hann spurði hvernig væri best að gera það. „Eigum við að gera það með handafli? Setja á kynjakvóta? Er ástandið svo slæmt að engar aðrar leiðir séu færar í stöðunni? Ég er persónulega þeirra skoðunar að menn eigi ekki að vera dómarar vegna þess að þeir eru eins kyns en ekki annars,“ sagði Skúli.

„Ég er þeirrar skoðunar að menn eigi að verða dómarar vegna eigin verðleika, vegna þess að þeir eru hæfir lögfræðingar og ekki síður vegna þess að þeir hafa nauðsynlega reynslu til að bera til þess að verða sjálfstæðir dómarar,“ sagði hann í erindi sínu. „Ég horfi á kollega mína, sem eru konur, og þeir eru ekki þarna vegna þess að þeir eru konur eða vegna kynferðis eða kynhneigðar eða einhverra annarra þátta. Þeir eru dómarar vegna þess að þeir hafa þessa kosti sem ég nefndi áðan.“

Hann ítrekaði spurningu sína um hvort þörf væri á kynjakvótum við val á dómurum eða hvort þörf væri á sértækum aðgerðum við skipun hæstaréttardómara. „Mér finnst við ekki vera búin að vinna heimavinnuna fyrir slíka umræðu og ég verð að sjá einhvern rökstuðning fyrir því að við séum komin í slíkt öngstræti að aðrar leiðir séu ekki færar.“

Skúli benti á þá staðreynd að um helmingur dómara við héraðsdóma landsins eru konur og að fjöldi kvenna í stétt lögfræðinga hafi farið vaxandi. „Ég held að það séu einhver merki um það að feðraveldið sé að gefa eitthvað eftir, hægt og bítandi. Við skulum vona það að minnsta kosti.“ sagði Skúli.

Skortur á innra samræmi

Hann gerði í erindi sínu athugasemdir við störf dómefndar um hæfni dómara og velti upp hvernig hún hefði að öðru leyti staðið sig. „Í fyrsta lagi tel ég talsvert skorta á að nefndin hafi gætt innra samræmis við mat sitt og álit.“ Hann benti á að atriði sem er talið hafa mikið vægi einn daginn sé talið þýðingarlítið annan daginn. „Hér má nefna reynslu við alþjóðlega dómstóla sem stundum þykir skipta miklu máli og stundum skiptir ekki miklu máli. Eða fræðistörf, sem stundum skipta miklu máli og stundum eru ekki talin nýtast réttinum,“ sagði Skúli.

Auk þess benti hann á að nefndin hafi gengið allt of langt í að raða umsækjendum upp í ákveðna röð þótt ljóst sé að þau viðmið sem lögð eru til grundvallar séu „afskaplega matskennd. Hvort er til dæmis veigameira: farsæll ferill í lögmennsku eða farsæll ferill í embætti héraðsdómara? Hvort er betra: súkkulaðiís eða jarðaberjaís?“ spurði Skúli og sagði nefndina ekki hafa hikað við að fullyrða að einn sé betri en annar jafnvel þótt að við vitum öll að það er ómögulegt að gera upp á milli súkkulaðiíss og jarðaberjaíss með einhverjum hlutlægum hætti,“ sagði Skúli. Nærtækara væri að stilla slíkum tveimur kostum upp sem jafngildum og láta veitingarvaldið um að taka endanlega ákvörðun.

Hann sagði þetta hafa skapað þá tilfinningu í umræðu um nefndina að að geðþótti ráði för við mat á umsækjanda og lýsti yfir sérstökum áhyggjum með það hvernig nefndin fjallaði um níu ára reynslu eins umsækjandans sem dómara við einn virtasta dómstól heims, Mannréttindadómstól Evrópu. „Mín skoðun er sú að íslenskt réttarkerfi setji niður við þá umfjöllun sem er að finna í þessu áliti um þetta efni,“ sagði Skúli, og sagði ennfremur sjálfstætt áhyggjuefni fyrir þá sem starfa við alþjóðlega dómstóla, sem meðal annars fjalla um hvort íslenskir dómstólar standi sig í stykkinu og veita íslensku réttarkerfi aðhald, hvort þeir megi eiga von á að vera „úti í kuldanum“ þegar þeir snúa heim, ef þeir þá fái það þá á annað borð!

„Mín skoðun er sú að þeir sem sitja í þessari nefnd og þeir sem skipa í þessa nefnd þurfi einfaldlega að taka sér tak um það hvernig þeir haga sínum störfum,“ sagði Skúli, og tók sérstaklega fram að Dómarafélag Íslands, sem hann veitir formennsku, tilnefni ekki fulltrúa í nefndina.

Undir lokin sagði hann að rétt hefði verið á fundinum að ræða hver reynslan hafi verið af því fyrirkomulagi við skipan dómara sem komið var á með lögum 45/2010 sem breyttu dómstólalögum. „Ég get ekki komist hjá því að gera við það örfáar athugasemdir. Í fyrsta lagi var ástandið fyrir 2010 ekki gott. Það fyrirkomulag einkenndist af sjálfdæmi ráðherra sem fór sínu fram án þess að ábyrgð og reikningsskapur gagnvart Alþingi væri fyrir hendi svo nokkru næmi. Áhrif faglegrar stjórnsýslu voru takmörkuð og það er einfaldlega staðreynd að við vorum komin í mikil vandræði með skipan dómara. Með lagasetningunni 2010 var farin sú leið að taka ákvörðunarvaldið að verulegu leyti úr hendi ráðherra. Í reynd var þessari dómnefnd falið mikið vald. Það fyrirkomulag er ekki hafið yfir gagnrýni, enda á það sér engin fordæmi, að minnsta kosti ekki frá nágrannalöndum okkar,“ sagði Skúli.

Sannleikurinn er hins vegar sá að það er ekki komin mikil reynsla á þetta kerfi. Það er þó ekki gallaðra en svo að ráðherra getur nú látið fara fram sjálfstætt mat á niðurstöðu þessarar nefndar og ráðherra getur farið fyrir Alþingi með málið. Spurningin þá er auðvitað hvort Alþingismenn myndu rísa undir þeirri ábyrgð að fjalla málefnalega um skipan dómara eða hvort sú umræða myndi einkennast af upphrópunum og lýðskrumi - eins og stundum vill verða raunin á þeim bæ. Ef það yrði niðurstaðan myndi það eflaust hafa neikvæð áhrif á ímynd og trúverðugleika dómstóla og þá væri betur heima setið en af stað farið.“ sagði Skúli.

Skúli Magnússon.
Skúli Magnússon.
Kristrún Elsa Harðardóttir og Ragnar Aðalsteinsson héldu auk Skúla erindi …
Kristrún Elsa Harðardóttir og Ragnar Aðalsteinsson héldu auk Skúla erindi á fundinum. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka