Gæti ekki verið skýrara

Kristrún Elsa Harðardóttir, formaður Félags kvenna í lögmennsku.
Kristrún Elsa Harðardóttir, formaður Félags kvenna í lögmennsku. mbl.is/Styrmir Kári

Kristrún Elsa Harðardóttir, formaður Félags kvenna í lögmennsku (FKL), hélt erindi á fundi Orators, félags laganema við Háskóla Íslands í dag. Auk Kristrúnar héldu Skúli Magnússon og Ragnar Aðalsteinsson erindi á málþinginu, sem var haldið í tilefni umræðna um skipan nefndar sem metur hæfi umsækjenda um stöðu dómara við Hæstarétt.

Frétt mbl.is: Eiga ekki að vera dómarar vegna kyns

Kristrún sagði FKL hafa séð sig knúið til að lýsa afstöðu sinni. Hún sagði nálgun sína vera aðra en þá sem Skúli var með í fyrra erindi, og snýr aðallega að skipun nefndarinnar.

Stórt hagsmunamál fyrir konur

Félagið sendi frá sér yfirlýsingu á föstudaginn í tilefni af þessari umræðu þar sem það harmar afstöðu Lögmannafélagsins og annarra sem tilnefna í nefndina um að jafnréttislögin gildi ekki um skipan í nefnd sem metur hæfi dómara við Hæstarétt.

„Það er stórt hagsmunamál fyrir konur í stétt lögmanna og lögfræðinga að þær hafi jöfn tækifæri á við karla í þessum geira og að það sé farið að settum reglum þegar verið er að skipa í opinberar áhrifastöður, ekki síst embætti hæstaréttardómara,“ sagði Kristrún Elsa.

Kynjakvóta framfylgt í Noregi og Danmörku

Hún dró saman framkvæmdin í Noregi og Danmörku. Í Noregi eru dómarar skipaðir samkvæmt tilnefningu frá tilnefningarráði, en í því sitja sjö, þrjár konur og fjórir karlar. Þar er skylda til að hafa að minnsta kosti þrjá einstaklinga af öðru kyninu þegar nefndin er skipuð 6-8 einstaklingum. „Þessu er beitt í framkvæmd,“ sagði Kristrún Elsa.

Í Danmörku er sambærileg nefnd skipuð sex einstaklingum, og dönsk lög gera ráð fyrr að í opinberum nefndum skuli kynjahlutföll vera jöfn og eru jafnræðislögin dönsku talin ganga framar öðrum lögum. Nefndin er því skipuð þremur körlum og þremur konum.

Gæti ekki verið skýrara

Hún vék að skipan mála á Íslandi. Þau ákvæði sem um ræðir er meðal annars að finna í dómstólalögum og jafnréttislögum:

  • 1. málsgrein 4. greinar a. dómstólalaga: Ráðherra skipar fimm menn í dómnefnd til að fjalla um hæfni umsækjenda um embætti hæstaréttardómara og héraðsdómara. Tveir nefndarmanna skulu tilnefndir af Hæstarétti, þar af annar þeirra sem formaður nefndarinnar, og skal að minnsta kosti annar þeirra ekki vera starfandi dómari. Tilnefnir dómstólaráð þriðja nefndarmanninn en Lögmannafélag Íslands þann fjórða. Fimmti nefndarmaðurinn skal kosinn af Alþingi. Varamenn skulu tilnefndir og skipaðir á sama hátt. Skipunartími í nefndina er fimm ár en þó þannig að skipunartími eins manns rennur út hvert ár. Sami maður verður ekki skipaður í sæti aðalmanns í nefndinni oftar en tvisvar samfleytt.
  • 15. grein jafnréttislaga:  Þátttaka í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera
  • Við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Þetta gildir einnig um stjórnir opinberra hlutafélaga og fyrirtækja sem ríki eða sveitarfélag er aðaleigandi að.
  • Þegar tilnefnt er í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skal tilnefna bæði karl og konu. Tilnefningaraðila er heimilt að víkja frá þessu skilyrði 1. málsl. þegar hlutlægar ástæður leiða til þess að ekki er mögulegt að tilnefna bæði karl og konu. Skal tilnefningaraðili þá skýra ástæður þess.
  • Skipunaraðila er heimilt að víkja frá ákvæði 1. mgr. ef undanþáguheimild 2. mgr. á við.

„Þetta gæti eiginlega ekki verið skýrara,“ segir Kristrún Elsa eftir að hún les upp 2. málsgrein 15. greinar jafnréttislaga um að „þegar tilnefnt er í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skal tilnefna bæði karl og konu.“

Hún benti einnig á að markmið jafnréttislaga væri meðal annars að vinna að jöfnum áhrifum kvenna og karla í samfélaginu. Þá benti hún á jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar, þar sem segir að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og að konur og karlar skuli njóta jafns réttar í hvívetna.

„Hvernig vilja þessir tilnefningaraðilar túlka þessi ákvæði sem um ræðir þegar á að tilnefna í þessa nefnd. Hæstiréttur segir að þar sem ráðherra sé bundinn af tillögu dómnefndarinnar þá víki ákvæði dómstólalaga jafnréttislögum til hliðar. Dómstólaráð vill meina að jafnréttislög séu almenn lög sem þurfa að víkja fyrir sérákvæðum dómstólalaga og Lögmannafélag Íslands segir að dómstólalögin séu sérlög sem gangi framar jafnréttislögum. Svo tala allir þessi aðilar um tilgang þessara breytingalaga á dómstólalögunum, sem var ætlað að skerða vald ráðherra til að hafa áhrif á dómstóla,“ segir Kristrún Elsa.

Allir vilja víkja til hliðar settu lagaákvæði

„Allir þessir aðilar eiga það sameiginlegt að vilja víkja til hliðar settu lagaákvæði jafnréttislaganna og virðast beita fyrir sig einhverskonar markmiðsskýringu og taka markmið dómstólalaga um að minnka vald ráðherra yfir þessari skipan. FKL er ekki sammála þessari lagatúlkun. Alls ekki og okkur finnst hún í rauninni ótæk í ljósi ákvæða jafnréttislaga og jafnréttisákvæðis stjórnarskrárinnar.“

Hún sagði að túlka ætti dómstólalög í samræmi við jafnréttislög og stjórnarskrána. Þá þyrfti að taka til athugunar skýran vilja löggjafans um jafnan hlut kynjanna við skipun í opinberar nefndir. „Það að skipa opinbera nefnd sem er eingöngu skipuð körlum gengur gegn 15. grein jafnréttislaga og gegn markmiði þeirra,“ sagði Kristrún.

Hún vitnaði í grein eftir Ragnheiði Bragadóttur, prófessor við lagadeild, sem sat á fremsta bekk í Lögbergi í dag, og Brynhildi Flóvenz, sem einnig var viðstödd málþingið.

Hafið yfir allan vafa að jafnréttislögin gildi

„Þessi túlkun laga um dómstóla og jafnréttislög getur ekki gengið upp. Hér þarf engin flókin lagarök. Það er svo sjálfsagt að jafnréttislög gildi um öll svið samfélagsins að það er hafið yfir allan vafa enda verður að túlka lög í samræmi við tilgang þeirra. Það má heldur ekki gleymast að lögin eiga að þjóna samfélaginu, samfélagi hér á Íslandi þar sem karlar og konur eiga að njóta fullkomins jafnréttis. Önnur túlkun laganna er andstæð heilbrigðri skynsemi og ákvæðum stjórnarskrár um jafnrétti kynjanna,“ segir í greininni.

Kristrún sagði þá að einhverjir kynnu að velta fyrir sér sjálfstæði dómstólanna. Samkvæmt því fyrirkomulagi sem nú er í gildi er hægt að meta tvo eða fleiri umsækjendur jafnhæfa, þannig að ráðherra hefur ennþá vald. „Þessi rökstuðningur er því mjög langsóttur og á ekkert við.“

Innanríkisráðuneytið gæti neitað að skipa í nefndina

Að mati FKL er ekkert sem mælir gegn því að bæði karl og kona séu tilnefnd í nefndina sem metur hæfi umsækjenda um stöður Hæstaréttardómara, og að innanríkisráðuneytið neiti að skipa í nefndina nema farið sé að jafnréttislögum. Þá sagði hún að hægt væri að láta þá sem tilnefna í nefndina vita komi upp sú staða að um of halli á annað kynið og kalla eftir nýrri tilnefningu. „Hvorugur þessara valmöguleika fer gegn ákvæðum dómstólalaga að mati FKL,“ sagði Kristrún. „Enda ber að túlka dómstólalög í samræmi við önnur gildandi lög.“

Hún sagði að það viðhéldi ójafnræði að takmarka möguleika kvenna á að skipa í æðstu stöður samfélagsins. Með tilkomu jafnréttislaga væri skipun nefndarinnar brot á jafnréttislögum, því það útilokaði konur í að hafa áhrif á hverjir ættu sæti í Hæstarétti, og sagði konur ekki hafa rödd á við karla í Hæstarétti.

Hún sagði FKL ekki hafa farið í saumana á því hver hefði verið metinn hæfastur af nefndinni, enda oft erfitt að gera það því nefndin væri að hennar mati ekki samkvæm sjálfri sér í niðurstöðum sínum.

Stenst ekki að karlar sé alltaf þeir hæfustu

Hún lauk erindi sínu með því að vitna í grein sem Heiða Kristín Helgadóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, skrifaði í Kjarnann:

„Þau sjónarmið heyrast gjarnan að dómarar við Hæstarétt ættu að vera hæfustu lögfræðingar á hverjum tíma. Vissulega göfugt sjónarmið í sjálfu sér, en það stenst enga skoðun að þeir séu alltaf í yfirgnæfandi meirihluta karlmenn sama hvað ár er. Ég kæri mig ekki um að tilheyra samfélagi, þar sem engu máli skiptir hversu mikið við konur menntum okkur, hversu mörgum trúnaðarstörfum við sækjumst eftir eða hversu hratt við hlaupum, alltaf skal eitthvað annað metið mikilvægara og vega þyngra í þetta skiptið en sú hæfni sem við höfum fram að færa. Við erum svo hvattar áfram með þeim skilaboðum að okkur standi allir vegir færir, ef við bara höldum áfram að reyna. Nei takk. Hættið þessum ruglingi, stigið til hliðar og myndið pláss fyrir aðra en ykkur sjálfa í æðstu stöður samfélagsins hvort sem er á Alþingi eða við Hæstarétt, eða í það minnsta gefið fleirum en ykkur sjálfum færi á að að meta hvenær konur eru orðnar samkeppnishæfar við ykkur. Aðeins þannig getum við náð raunverulegum framförum, aukið sátt og virðingu fyrir grunnstofnunum og orðið betra og réttlátara samfélagi.“

Fullt var út úr dyrum á fundinum í dag.
Fullt var út úr dyrum á fundinum í dag. mbl.is/Styrmir Kári
Fundurinn var haldinn af Orator, félagi laganema við Háskóla Íslands …
Fundurinn var haldinn af Orator, félagi laganema við Háskóla Íslands í dag. Auk Kristrúnar héldu Skúli Magnússon og Ragnar Aðalsteinsson erindi á málþinginu, sem var haldið í tilefni umræðna um skipan nefndar sem metur hæfi umsækjenda um stöðu dómara við Hæstarétt. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka