Tvær handtökur voru gerðar í gær á Siglufirði af starfsmönnum embættis sérstaks saksóknara. Eru hinir handteknu grunaðir umfjárdrátt hjá Sparisjóði Siglufjarðar. Vísir sagði frá málinu í dag og kemur fram í frétt þeirra að rökstuddur grunur hafi verið um fjárdrátt fyrrum skrifstofustjóra sjóðsins. Ólafur Hauksson, sérstakur saksóknari, staðfestir í samtali við mbl.is að handtökurnar hafi verið gerðar og að um sé að ræða „umtalsverðar upphæðir.“
Hinir handteknu og vitni í málinu voru yfirheyrð í gær, en ekki þótti tilefni til að halda fólkinu í varðhaldi í dag. Ólafur segir aðspurður um stærð málsins ekki geta tjáð sig nákvæmlega um það. Aftur á móti hafi öll viðmið um hvað séu háar upphæðir farið á flot í kjölfar hrunsins, en ef miðað sé við hefðbundin mál, þá geti hann sagt að um allháar fjárhæðir sé að ræða.
Hann staðfestir að málið teygi sig yfir nokkra ára tímabil, en í gær var einnig ráðist í húsleitir og lagt hald á talsvert magn gagna.
Aðspurður hvort að um slíkar fjárhæðir sé að ræða að þær hefðu getað haft áhrif á rekstur sjóðsins, sem Arion banki yfirtók í sumar, segist Ólafur ekki getað tjáð sig um það að svo stöddu.
Í yfirlýsingu frá AFLi sparisjóði, sem áður hét Sparisjóður Siglufjarðar, kemur fram að eftir fyrirspurn frá Sérstökum saksóknara, í alls óskyldu máli, hafi komið upp rökstuddur grunur um fjárdrátt fyrrum skrifstofustjóra AFL sparisjóðs og í framhaldi af því hafi málið verið kært til Sérstaks saksóknara.
Uppfært 18:40: AFL sparisjóður vill einnig koma því á framfæri að starfsmaðurinn sem um ræðir er ekki lengur starfandi hjá AFLI og lét af störfum fyrr á þessu ári.