Hótel rís ekki á svæði Valsmanna

Framkvæmdir á Valssvæðinu að Hlíðarenda. Borgarstjóri segir að hótelið muni …
Framkvæmdir á Valssvæðinu að Hlíðarenda. Borgarstjóri segir að hótelið muni ekki rísa á uppbyggingarsvæði Valsmanna. Það staðfestir framkvæmdastjóri Valsmanna. mbl.is/Árni Sæberg

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, segir að 17.500 fermetra hótel sem stefnt sé að reisa í Vatnsmýri sé ekki hluti af uppbyggingasvæði Valsmanna. Um sé að ræða frátekið land fyrir framtíðaráfanga Landspítalans. Mikilvægt sé að dreifa hóteluppbyggingu svo hún sé ekki öll í miðborg og Kvos.

Borgarstjóri greinir frá þessu á Facebooksíðu sinni í gærkvöldi. 

Hann segir að einhverjir séu að velta fyrir sér frétt RÚV af nýju hóteli í Vatnsmýri. Margar spurningar hafi vaknað og segist Dagur vilja svara því helsta, en hann segir margt sem komi til. Hann bendir m.a. á, að þetta sé önnur af tveimur atvinnulóðum sem sé á milli Hlíðarendasvæðisins og Hringbrautar.

„Af hverju ekki íbúðir? Við Hringbraut er ekki hægt að skipuleggja íbúðabyggð vegna hljóðvistar.

Er þetta hluti af svæði eða samningum við Valsmenn? Nei. Þetta er ekki hluti af uppbyggingarsvæði Valsmanna heldur var þarna var áður frátekið land fyrir framtíðaráfanga Landspítalans, en þegar ljóst var að þeir kæmust fyrir norðan Hringbrautar runnu þessir skikar aftur til borgarinnar,“ skrifar Dagur.

Þetta staðfestir Brynjar Harðarson, framkvæmdastjóri Valsmanna, í samtali við mbl.is.

S8 átti forkaupsrétt að lóð við hús Íslenskrar erfðagreiningar

„Er vont að þarna verði hótel? Nei, ekki endilega. Það er mikilvægt að dreifa hótel-uppbyggingu þannig að hún sé ekki öll í miðborg og Kvos. Og ef við leyfum engin hótel þá mun ferðaþjónustan bara auka þrýstinginn á íbúahverfin miðsvæðis.

Hvernig tengist þetta uppbyggingu stúdentagarða á svæði HÍ? Að síðustu má svo nefna að þessi fjárfestir [S8 - innskot blm] átti forkaupsrétt að lóð við hús Íslenskrar erfðagreiningar sem tókst að losa um með þessari lóðasölu. Þar með skapast rými til þekkingaruppbyggingar og byggingu um 200 stúdentaíbúða á svæði HÍ, sem er gríðarlega jákvætt,“ skrifar Dagur jafnframt.

Borgin áskilur sér rétt til að stýra uppbyggingu hótela

Í annarri færslu, sem var birt í morgun sem ummæli við pistil Egils Helgasonar fjölmiðlamanns, segir Dagur, að fjölgun ferðamanna sé staðreynd. Þeim hafi fjölgað um 109% frá 2009, en til samanburðar hafi hótelrýmum fjölgað um 29%.

„Samt þykir okkur nóg um. Borgin hefur lýst því yfir að í Kvosinni eigi hótelfermetrar ekki að fara yfir 23% af byggðum fermetrum, en fyrirliggjandi áform munu fylla þann kvóta. Við erum að skoða önnur svæði þar sem við höfum áhyggjur af mettun og einhæfni og áskiljum okkur allan rétt til að stýra þessari þróun, eftir því sem við getum, en bæði lög og reglur setja okkur nokkrar skorður í því. Þó virðist ljóst að við verðum að hugsa fyrir hótel-uppbyggingu til að mæta fjölgun ferðamanna,“ skrifar Dagur og bætir við að sú uppbygging þurfi þá að vera annars staðar en í Kvos.

Hann segir umrædda fjárfestingu og uppbyggingu bæta lífsgæði og gera borgina betri. 

 

einhverjir eru að velta fyrir sér frétt rúv af nýju hóteli í Vatnsmýri - og hafa velt upp mörgum spurningum. Reyni hér a...

Posted by Dagur B. Eggertsson on 29. september 2015

 

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur. mynd/Baldur Kristjánsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka