Ársskýrsla velferðarsviðs Kópavogs fyrir árið 2014 hefur verið birt. Þar kemur fram að kostnaður vegna liðveislu fyrir fatlaða hefur aukist um 80% frá því sveitarfélögin tóku við þjónustunni 2011 og um 40% frá 2012. Í skýrslunni er kallað eftir aukinni aðkomu ríkisins að fjármögnun verkefnisins. Velferðarsvið telur uppsafnaðan halla sinnar þjónustu vera 210 milljónir króna.
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs segir þær forsendur sem lagt hafi verið upp með þegar málaflokkurinn fluttist frá ríki til sveitarfélaga hafa verið byggðar á sandi. „Þessar forsendur, sem og mælikvarðar, voru allar óljósar og verkefnið lítt skilgreint. Þess vegna fór ég fram á það á sínum tíma að þessum flutningi yrði frestað um eitt ár til þess að standa betur að undirbúningi í samræmi við gagnrýna skýrslu Ríkisendurskoðunar á sínum tíma. Ég held við séum að bíta úr nálinni með það.“
Auknar kröfur ríkisins um búsetuúrræði fyrir fatla segir hann hafa bætt við vandann. „Þegar þetta tvennt kemur saman verður niðurstaðan eins og ég óttaðist á sínum tíma að grunnurinn sem meðgjöfin með málaflokknum var byggð á var byggður á sandi.“
Viðræður standa yfir milli sveitarfélaganna og ríkisins um málið. Ármann segist vonast til þess að ríkið hafi skilning á því hversu slæm staða málaflokksins var þegar hann færðist til sveitarfélaganna og það takist að rétta stöðu málaflokksins.
Alls nutu 267 aðstoðar bæjarins á forsendum laga um málefni fatlaðra.
Þeim sem þiggja fjárhagsaðstoð hjá bænum fækkaði úr 674 árið 2013 í 603 árið 2014. Bærinn þakkar því bæði bættu atvinnuástandi og breyttu verklagi við afgreiðslu umsókna með aðkomu félagsráðgjafa. Þó segist bærinn ekki anna eftirspurn eftir endurhæfingu fólks á vinnumarkað. 106 einstaklingar útskrifuðust úr Atvinnuveri bæjarins og voru 46% þeirra sagðir hafa snúið aftur til starfa.
140 umsóknir um leigu á félagslegri íbúð voru á biðlista í lok árs. 49 íbúðum var útdeilt á árinu en jafn mörgum umsóknum var hafnað. Þá var leigu nítján íbúða sagt upp vegna efri tekjumarka sem eru skilyrði fyrir leigu á félagslegri íbúð.
Tilkynningum til Barnaverndarnefndar bæjarins fjölgaði milli ára, úr tæplega 720 síðustu tvö ára í 774 tilkynningar í fyrra. Nefndin fundaði átta sinnum og vörðuðu þeir fundir 13 börn. Tvisvar var úrskurðað um vistun barns utan heimilis og tvisvar umgengni barna í fóstri. Meirihluti tilkynninga til nefndarinnar kom frá lögreglu, í samræmi við fyrri ár. Fjölgun varð á tilkynningum í öllum flokkum; Vanrækslu, áhættuhegðun barns, og ofbeldi.
Foreldrar 68 barna hlutu sértæka aðstoð sem er talsverð fækkun frá árinu áður, en þá var fjöldinn 108. Lýst var nokkurri ánægju með Áttuna, verkefni sem lýtur að því að aðstoða foreldra með uppeldisfræðslu innan heimilis, en níu mánaða biðlisti er eftir þjónustunni. 34 fjölskyldur nýttu sér hana árið 2014.
Áhyggjum er lýst í skýrslunni yfir aldursþróun íbúa sveitarfélagsins. 3673 íbúar sveitarfélagsins voru 66 ára eða eldri árið 2014 og nutu 17% þeirra heimaþjónustu af einhverju tagi. Frekari aðkomu ríkisins að þeim málaflokki er einnig óskað, auk þjónustu við fatlaða, til þess að standa megi straum af vaxandi kostnaði.