Skoða hótelkvóta á Laugavegi

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur. Ljósmynd/Baldur Kristjánsson

„Við höfum sagt að það sé komið nóg af hótelum í kvosinni og erum nú að kortleggja ástandið í miðborginni. Það þýðir að til að geta mætt ferðamannastraumnum þurfum við að dreifa uppbyggingu hótela betur. Þetta er út af fyrir sig ágætis skref í þá átt,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri um áætlaða byggingu 17.500 fermetra hótels í Vatnsmýrinni.

Hætta á einsleitari borg

„Ef vel verður að verki staðið þá gæti hótel sómt sér ágætlega þarna. Það dregur einnig með sér þjónustu, til að mynda veitingastaði og kaffihús sem geta nýst nýja hverfinu á Hlíðarenda,“ segir Dagur í samtali við mbl.is. Bætir hann við að þó sé vissulega vandasamt að framkvæma svo viðamikið verkefni.

Sjá frétt mbl.is: Byggja stærsta hótel landsins

„Miðað við nýjustu spár um fjölgun ferðamanna er ljóst að þetta verður ekki síðasta hótelið sem mun rísa í Reykjavík. Þá skiptir mjög miklu máli að við pössum upp á að þau verði ekki öll í hnapp heldur dreifist vel, og að við reynum að stýra þessari þróun eins og hægt er.

Ef við gerum það ekki þá er hætt við því að ferðaþjónustan þrýsti út leigumarkaðnum miðsvæðis enn meira en orðið er og leiguverð hækki. Í kjölfarið myndum við sitja upp með einsleitari borg.“

Stýra staðsetningu nýrra hótela

Hámark hótel- og gistirýmis í Kvosinni má ekki vera meira en 23% af fermetrafjölda húsanna á svæðinu, en tillaga þess efnis var samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar í febrúar á þessu ári.

Þegar þau hótel sem þegar hafa verið leyfð eru risin, munu að öllu óbreyttu ekki rísa fleiri hótel í Kvosinni, sem borgaryfirvöld skilgreina sem svæðið frá Grjótaþorpi að Lækjargötu að Austurhöfn undanskilinni.

Dagur segir að nú sé til skoðunar að setja álíka takmarkanir víðar í miðborginni. „Við erum að skoða sambærilegar takmarkanir upp með Laugavegi og Hverfisgötu. Þannig að við notum þau tæki sem við þó höfum í gegnum skipulag, til að stýra því hvar ný hótel muni koma til með að vera.“

Lóðinni úthlutað á markaðsverði

Á skipulagi Reykjavíkurborgar er lóð tilvonandi hótelsins skilgreind sem atvinnulóð. „Að því gefnu að þeir haldi sig innan skipulagsins þá er ekki víst að því þurfi nokkuð að breyta. Borgin selur þetta fyrst og fremst sem atvinnulóð en tekur ekki afstöðu til þess hvort þarna rísi hótel, skrifstofur, höfuðstöðvar eða annað. Það er á hendi lóðarhafans,“ segir Dagur.

Fram hefur komið að fé­lagið S8 stend­ur á bak við bygg­ing­una, en eig­andi þess er Jó­hann Hall­dórs­son. Að sögn Dags fékk félagið lóðina með úthlutun á markaðsverði, en áður var hún frátekin fyrir framtíðaráfanga Landspítalans. Þegar ljóst var að þeir kæm­ust fyr­ir norðan Hring­braut­ar rann lóðin aftur til borg­ar­inn­ar.

Sjá frétt mbl.is: Hótel rís ekki á svæði Valsmanna

„Með þessari úthlutun náðum við að losa okkur undan forkaupsrétti sem S8 hafði á lóð við Njarðargötu, á næsta reit við Íslenska erfðagreiningu. Þar viljum við sjá þekkingar- og háskólatengda starfsemi og stúdentagarða. Við opnuðum þar með fyrir það að þar geti risið um 200 stúdentaíbúðir. Þetta er því margþætt mál og sá angi af því er sérstaklega ánægjulegur.“

Til skoðunar er að setja takmarkanir á hótelfjölda í miðborginni.
Til skoðunar er að setja takmarkanir á hótelfjölda í miðborginni. mbl.is/Eggert
Mikil uppbygging er áformuð vestan undir Öskjuhlíð.
Mikil uppbygging er áformuð vestan undir Öskjuhlíð. Tölvuteikning/Alark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert