„Tillagan var lögð fram af forystumönnum sjálfstæðisfélaganna á Seltjarnarnesi og málið var síðan samþykkt einróma á fundinum. Það tók enginn til máls til að andmæla henni,“ segir Friðrik Friðriksson, formaður stjórnar Fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Seltjarnarnesi, í samtali við mbl.is.
Samþykkt var á sameiginlegum fundi Fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Seltjarnarnesi, Sjálfstæðisfélags Seltirninga og Baldurs, félags ungra sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi, ályktun þar sem Ólöf Nordal innanríkisráðherra er hvött til þess að gefa kost á sér sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi flokksins 23.-25. október. Ályktunin hjóðaði svo:
„Fundurinn hvetur Ólöfu Nordal innanríkisráðherra til að gefa kost á sér til embættis varaformanns Sjálfstæðisflokksins á komandi landsfundi. Ólöf hefur sýnt það í störfum sínum nú sem fyrr að hún býr yfir krafti, áræðni og reynslu til forystustarfa á vegum Sjálfstæðisflokksins.“
Félag sjálfstæðismanna í Langholtshverfi í Reykjavík skoraði í síðustu viku einnig á Ólöfu að gefa kost á sér í embætti varaformanns Sjálfstæðisflokksins á landsfundinum fyrr í þessum mánuði, en Ólöf var varaformaður flokksins frá 2010 til 2013 þegar hún lét af embætti og þingmennsku.
Friðrik segir að ákveðið hafi verið að leggja fram ályktunartillöguna talsvert fyrir fundinn en tilgangur hans var aðallega að velja fulltrúa félaganna á landsfund. Aðspurður segir hann að það hafi óneitanlega komið nokkuð á óvart að stuðningur við tillöguna hafi verið svona afgerandi. Hún hafi nánast verið samþykkt umræðulaust og enginn lagst gegn henni en um 40-50 manns voru á fundinum að hans sögn.
Frétt mbl.is: Hvetja Ólöfu til framboðs á landsfundi