Skólastjóri Háteigsskóla, Ásgeir Beinteinsson, biður foreldra og nemendur skólans afsökunar á því að kennarar eða starfsmenn skólans hafi kunnað að særa eitthvað barn í skólanum með athugasemdum um klæðaburð þeirra í fréttabréfi sem sent var til foreldra barna í Háteigsskóla í dag.
„Hafi kennari eða starfsmaður sært eitthvert barn í skólanum með athugasemdum sínum um klæðnað þykir okkur það afar miður og biðjumst afsökunar á því,“ skrifar Ásgeir.
Hann segir að kennarar skólans hafi lýst áhyggjum við skólastjórnendur af því að nokkrir nemendur væru ekki í klæðnaði sem hæfði skólaumhverfinu.
„Kennarar eiga að ræða við einstaka nemendur ef þeim finnst að klæðnaður þeirra sé ekki við hæfi,” skrifar Ásgeir.
Segir hann óróleika hafa skapast í skólanum vegna málsins og málinu því komið í „lýðræðislegan umræðufarveg sem það er í núna,” skrifar hann og bætir við að málið verði rætt í skólaráði, í starfsmannahópum og með nemendum.
„Ég vil ítreka að engar reglur eru í skólanum um fatnað aðrar en þær sem koma fram á bls. 31 í handbók foreldra og nemenda þar sem segir að foreldrar þurfi að athuga að haga klæðnaði barna sinna eftir veðri því þau eigi að fara út í frímínútur. Hvorki skólastjóri né aðstoðarskólastjóri hafa gefið út reglur eða gefið fyrirmæli um klæðnað og að sjálfsögðu heldur ekki gefið út viðurlög við slíkum reglum.”
Hópur stelpna í tíunda bekk Háteigsskóla mættu í magabolum í skólann sl. föstudag til þess að mótmæla tilmælum frá kennurum skólans um að klæðast ekki bolunum vinsælu.
„Við stelpurnar bara ákváðum að mæta í magabolum. Okkur finnst að þetta sé ekki eitthvað sem kennarar geta skipt sér af því þetta eru bara föt. Það ræður enginn hvernig við lítum út. En í dag mættum við allar í magabolum og nokkrir strákar líka. Það er eiginlega bara allt unglingastigið í magabolum í dag,“ sagði Embla Margrét Særósardóttir, nemandi í tíunda bekk Háteigsskóla af því tilefni í samtali við mbl.is í síðustu viku.