Gríðarlegt tjón er að verða á landi vegna Skaftárhlaups. Rennsli í Eldvatni við Ása er nú 2.055 m³/s og hafa bændur á svæðinu aldrei séð annað eins. Tjón er á túnum, ökrum og ræktuðu landi og eru varnargarðar að bresta. Búið er að loka brúnni við Skaftártungu og vatn er farið að flæða yfir veginn við Hvamm.
Frétt mbl.is: Hlaupið hrifsar til sín landið
Ragnar Axelsson, ljósmyndari Morgunblaðsins og mbl.is er á svæðinu ásamt blaðamanni mbl.is og munu myndir og fréttir berast frá þeim í allan dag. Samkvæmt upplýsingum frá blaðamanni er allt á floti og eru kál- og korngarðar undir 3-4 fjórum metrum af vatni.
Rennsli í Eldvatni við Ása er nú meira en áður hefur sést og flæðir áin út fyrir farveg sinn. Á áin enn eftir að vaxa mikið og mun flóðvatn aukast utan farvegar næstu daga. Vatnshæðin er rúmir átta metrar.
„Það er gríðarlegt vatnsflæði,“ segir Víðir Reynisson, verkefnisstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi og fulltrúi Almannavarna. Þegar blaðamaður náði tali af honum var hann við Eldvatn við Ása að kanna aðstæður. „Hér á Ásum hefur orðið mikið tjón,“ segir Víðir.
Víðir segir að búið sé að loka brúnni við Skaftártungu.. „Þetta er alveg rosalega mikið vatn og sullast upp úr djúpum farvegi. Ég er hérna með bóndanum á Ásum og hann hefur aldrei séð svona,“ segir hann og bætir við Eldvatn sé ekki komið í fullan vöxt.
„Við erum að skoða varnargarðana sem eru hérna aðeins ofar sem er farið að flæða yfir, hér er að verða gríðarlegt tjón á landi. Á túnum og ökrum, landbrot á ræktuðu landi líka. Mikið af grónu landi að hverfa í ána. Þetta er alveg upp með allri ánni, það er farið að flæða yfir veginn við Hvamm ofar í dalnum,“ segir Víðir.
Rennslið í ánni hefur farið ört vaxandi frá miðnætti í nótt en þá var það um 650 m³/s. Klukkan átta í morgun var það 1600 m³/s.
Í tilkynningu á vef Veðurstofu Íslands segir að samfara hlaupvatningu sé búst við losun eldfjallagastegunda, svo sem brennisteinsvetnis og brennisteinsdíoxíðs.Gasið fylgir ríkjandi vindum og berst til norðausturs frá Skaftá um austanvert landið.