„Ég ætlaði að slá korn í morgun en nú er þetta komið undir 3-4 metra af vatni,“ segir Gísli Halldór Magnússon, bóndi á Ásum. Hann hefur meðal annars misst kálgarð undir vatnið úr Skaftárhlaupi en vatnshæðin í Eldvatni hefur hækkað um tvo metra frá kl. 6 í morgun og mun hækka meira.
Gríðarlegt rennsli er í hlaupinu við brúnna við Ása þar sem áin hefur breyst í beljandi stórfljót. Áætlað er að rennslið sé um 2.000 rúmmetrar á sekúndu. Búist er við því að straumþunginn vaxi í 3.000 rúmmetra með deginum. Vegir inn í Skaftárdal hafa lokast vegna hlaupsins. Starfsmenn Vegagerðarinnar við brúnna yfir Eldvatn við Ása sögðust ekki hafa séð annað eins rennsli.
Gísli Halldór segist hafa ætlað að fara út að slá korn fyrir sunnan Ása í morgun en leiðin þangað var þá komin undir 3-4 metra af vatni. Flætt hefur yfir töluvert svæði lands þar sem hann hefur verið með kálrækt. Fyrir austan Eldvatn hafi fleiri hektarar uppgræðslusvæðis farið undir vatn.
Erfitt er að slá á hversu mikið tjónið er og segir Gísli Halldór að ekki sé útséð um það ennþá enda geti vatnsborðið hækkað um tvo metra til viðbótar áður en yfir lýkur.
„Við erum ósköp litlir þegar náttúruöflin taka sig til,“ segir hann.
Hann telur að ef varnargarður sem stendur norðaustan fyrir ása brestur í hlaupinu muni þjóðvegurinn rofna.