Tjón upp á 20-30 milljónir

„Þetta er mikið fjárhagslegt áfall fyrir félagið og áskorun,“ segir Tómas Torfason, framkvæmdastjóri KFUM og KFUK, en hann gerir ráð fyrir að tjón af völdum myglusvepps í skrifstofurými samtakanna í Laugardal nemi 20-30 milljónum króna. Þá hafi einn starfsmaður veikst mjög alvarlega. 

Í vor þurftu átta starfsmenn á skrifstofunni að rýma 300 fermetra skrifstofurými í eldri hluta húsnæðis samtakanna við Sunnuveg í Laugardal vegna myglusveppsins. 

Húsið var byggt á sjötta áratugnum en var endurbætt á þeim tíunda auk þess sem byggt var við það. Við athugun segir hann að komið hafi í ljós mikil rakasöfnun við sökkul hússins sem stendur neðarlega í brekku. Þannig hafi raki fundið sér leið inn í húsnæðið og mygla hafi myndast í lími á gólfdúki skrifstofunnar.

Skrifstofunnar hafa nú verið færðar í nýrri hluta húsnæðisins. Tómas segir mikilvægt að láta ástandið ekki raska starfseminni og segir það takast að stærstum hluta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert