Verða ekki sendir aftur til Ítalíu

Ólöf Nordal innanríkisráðherra
Ólöf Nordal innanríkisráðherra mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tveir hælisleitendur sem töpuðu málum sínum í Hæstarétti í síðustu viku verða ekki sendir aftur til Ítalíu fyrr en búið er að leggja mat á stöðu þeirra og „heildarsamhengi hlutanna“.

Þetta kom fram í svari Ólafar Nordal innanríkisráðherra við fyrirspurn Helga Hrafns Gunnarssonar, kafteins Pírata, á þingfundi í dag. Helgi spurði ráðherrann hvort hún væri enn þeirrar skoðunar að Ítalía, Grikkland og Ungverjaland væru ekki örugg lönd fyrir hælisleitendur en það kom fram í máli ráðherrans á þinginu í síðasta mánuði. Helgi sagði það ljóst að ef mennirnir yrðu sendir til Ítalíu þyrftu þeir að búa á götunni og róta í ruslatunnum eftir mat.

Fyrri frétt mbl.is: „Grikkland ekki talið öruggt land“

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, tók einnig til máls og spurði ráðherrann hvort hún myndi standa við orð sín með stjórnvaldsákvörðun um að enginn verði sendur til baka til þessara landa.

Ólöf ítrekaði svar sitt við fyrirspurn Helga og sagðist hafa farið fram á að þessir aðilar yrðu ekki sendir til baka að svo stöddu „meðan ráðuneytið er að fara yfir þetta mál og heildarsamhengi hlutanna.“

Ólöf sagði það einnig mjög vandmeðfarið að ræða nákvæmlega um einstök mál í þingsal en lagði áherslu á að málið væri til skoðunar. 

Fyrri frétt mbl.is: Harma niðurstöðu íslensks réttakerfis

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert