Lögmaður Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrum forstjóra Kaupþings, hefur farið fram á að meðdómari í Marple-málinu víki sæti í málinu, en dómsuppkvaðning var áformuð á föstudaginn. Þetta hefur mbl.is fengið staðfest. Aðalmeðferð fór fram í síðasta mánuði og tók vikutíma. Verði fallist á kröfu verjanda þyrfti að endurtaka aðalmeðferð málsins.
Búið er að setja munnlegan málflutning í málinu á dagskrá héraðsdóms í Reykjavík á morgun, en gera má ráð fyrir að krafan verði lögð fram þá.
Ekki hefur fengist uppgefið á hverju beiðnin byggir nákvæmlega, en samkvæmt heimildum mbl.is er meðal annars horft til þess að meðdómarinn, Ásgeir Brynjar Torfason, hafi verið þátttakandi í ýmiskonar þjóðfélagsumræðu sem dragi úr hlutleysi hans sem dómara.
Ásgeir er lector við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og kennir meðal annars greiningu ársreikninga og peningasýn og alþjóðlega fjármálakerfið. Í doktorsritgerð sinni skoðaði hann sjóðstreymi banka og peningamál.
Ásgeir er einnig stjórnarmaður í samtökunum Gagnsæi, en samkvæmt heimasíðu samtakanna berjast þau gegn spillingu í öllum grunnstoðum samfélagsins. Í aðsendri grein hans og annars stjórnarmanns í félaginu á Vísi frá því í febrúar á þessu ári er meðal annars fjallað um spillingu í atvinnulífinu.
„Spilling í viðskiptalífinu getur birst með margvíslegum hætti; mútuþægni, mútum, þjófnaði, fjárkúgun, samráði, fölsun ársreikninga og svikum hvers konar. Algengt form spillingar í viðskiptum er þegar stjórnendur og starfsmenn misnota stöðu sína til persónulegs ávinnings. Stundum geta hvatakerfin verið þannig uppbyggð að stjórnendur og starfsmenn missa sjónar á góðum gildum og langtímamarkmiðum fyrirtækisins, því allt kapp er lagt á að gíra upp skammtímahagnað til að ná bónusmarkmiðum,“ segir í greinni og seinna að flestum sé eflaust í huga fjármálahrunið 2008 þegar talað er um spillingu í viðskiptalífinu.