Hörður Felix Harðarson, verjandi Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrum forstjóra Kaupþings, segir meðdómara í Marple-málinu telja fjármálahrunið vera táknmynd spillingar og að ummæli hans í grein í Fréttablaðinu ásamt dreifingu á fréttum af Kaupþingsmálum benda til vanhæfi hans til að dæma í málinu. Þetta kom fram í munnlegum málflutningi málsins í dag. Sagði Hörður að út frá ummælum meðdómarans mætti draga óhlutdrægni hans í efa.
Aðalmeðferð í málinu fór fram í síðasta mánuði og tók eina viku. Á föstudaginn var áformað að kveða upp dóm í málinu, en verjandi Hreiðars segist hafa fengið upplýsingar um meinta óhlutdrægni meðdómarans og því farið fram á þetta. Undir kröfu hans tóku verjendur Magnúsar Guðmundssonar, fyrrum forstjóra Kaupþings í Lúxemborg, Guðnýjar Örnu Sveinsdóttur, fyrrum fjármálastjóri Kaupþings og félagsins Marple.
Eins og fram hefur komið í frétt mbl.is er meðdómarinn, Ásgeir Brynjar Torfason, lektor við Háskóla Íslands. Þá er hann stjórnarmaður í samtökunum Gegnsæi sem yfirlýst markmið er að berjast gegn spillingu. Hörður segir að þetta eitt og sér sýni fram á vanhæfni dómarans, þar sem í grunninn sé ákært í málinu fyrir spillingu, eins og samtökin skilgreini hana.
Þá er vísaði Hörður til þess að Ásgeir hafi tjáð sig um hrunmálin svokölluðu og sérstaklega málefni sem tengjast ákærðu og Kaupþingi bæði í aðsendum greinum og færslum á bloggsíðum, Facebook og Twitter.
Hörður vísaði í dag til þess að Ásgeir hefði meðal annars skrifað grein í Fréttablaðið í febrúar á þessu ári, ásamt öðrum stjórnarmanni í Gegnsæi, þar sem hann segir sýnilegt að þau telji fjármálahrunið 2008 vera „táknmynd spillingar í viðskiptalífinu.“ Þá hafi Ásgeir einnig tjáð sig tvisvar á vefsíðu Egils Helgasonar þar sem hann vísar sýnilega til stjórnenda bankanna sem óreiðumanna og að Íslendingar eigi ekki að láta orðsport þeirra festast við alla Íslendinga.
Þá benti Hörður á að Ásgeir hefði deilt fréttum af dómum yfir ákærðu á Facebook og Twitter og sýnt þannig jákvæða afstöðu til dómanna. Þá sagði Hörður að hann hefði deilt og mælt með Facebook færslu sem Baldur McQueen skrifaði um að hrærigrautur spillingar, græðgi, frændhygli og vankunnáttu hafi orsakað hrunið. Að lokum segir Hörður að Ásgeir hafi haft uppi ummæli á vettvangi Háskóla Íslands þar sem hann hafi ítrekað sagt að bönkunum hafi verið stýrt af glæpamönnum.
Dregið saman, sagði Hörður Ásgeir þannig hafa fyrirfram ákveðnar hugmyndir um svikastarfsemi, að ákærði sé bófi sem skorti siðferði og að ákærði hafi átt skilið dóm fyrr á árinu. „Ákærði má með réttu draga óhlutdrægni meðdómara í efa,“ sagði Hörður.
Saksóknari í málinu, Arnþrúður Þórarinsdóttir, hafnaði kröfum verjandans og sagði engin rök fyrir því að stjórnarseta Ásgeirs í málinu hefði áhrif á starf hans. Þannig sagði Arnþrúður markmið félagsins vera að berjast almennt gegn spillingu og að það hlyti að vera jákvætt fyrir alla, líka hina ákærðu.
Þá sagðist Arnþrúður gera athugasemdir við þær ályktanir sem Hörður hafi dregið af ummælum Ásgeirs og að þar væri „hrapað að ályktunum um hæfi.“ Sagði hún ekki hægt að fara eftir slíkum ályktunum við ákvörðun í málinu heldur út frá því sem raunverulega væri sagt.
Þannig sagði hún ummæli um Kaupþing og óreiðumenn vera tekin úr samhengi og að það hafi ekki tengst Marple málinu á neinn hátt. Þannig hafi það tengst neyðarláni Seðlabankans til Kaupþings. Þá sagði hún að í Fréttablaðsgreininni hafi verið vitnað til þess að fjármálahrunið sé efst í huga flestra þegar talað er um spillingu í viðskiptalífinu. Með þessu hafi hann þó alls ekki verið að taka afstöðu í málinu.
Þá fór Arnþrúður yfir að margoft hafi verið hafnað frávísun vegna vanhæfis dómara og benti á að í lekamálinu hafi meðal annars verið tekist á um „like“ á Facebook, en það hafi ekki verið tekið gilt. Sagði hún nokkuð mikið þurfa að koma til þannig að dómara sé vísað frá, meðal annar ómálefnaleg sjónarmið, en ekkert slíkt sé að skipta í þessu máli.
Dómsformaður mun taka sér einn dag til að taka þetta mál til úrskurðar og mun úrskurða í málinu á morgun.