Lítill vilji til þess að afstýra verkfalli

Hjá ríkissáttasemjara.
Hjá ríkissáttasemjara. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fundi í kjaradeilu SFR, Landsambandi Lögreglumanna og Sjúkraliðafélagi Íslands við ríkið lauk á þriðja tímanum í dag án árangurs í húsnæði ríkissáttasemjara. Formaður SFR segir það undarlegt að enginn vilji virðist vera hjá ríkinu til að reyna að leysa málið áður en verkfall skellur á í næstu viku. Ekki hefur verið boðað til nýs fundar.

„Fundurinn gekk ekki nægilega vel og olli okkur miklum vonbrigðum. Samninganefnd ríkisins var ekki með neitt til að leggja á borðið frá fjármálaráðherra og hafði greinilega hafði ekki neitt umboð til þess að ræða við okkur frekar en var gert í sumar,“ segir Árni Stefán Jónsson, formaður SFR, í samtali við mbl.is.

Að sögn Árna fengu samninganefndir félaganna þriggja engin tilboð í dag frá ríkinu. Hann segir ennfremur að samninganefndirnar þrjár hafi haft vilja til þess að leggjast yfir málið og reyna að finna lausnir. Að mati samninganefndar ríkisins var þó enginn grundvöllur til þess.

Aðspurður hvort honum finnist lítill vilji hjá ríkinu til þess að afstýra verkfalli SFR og SLFÍ svarar Árni því játandi.

„Mér finnst þetta afskaplega undarlegt svona stuttu fyrir verkfall. Það virðist ekki vera neinn vilji hjá fjármálaráðherra að reyna að leysa málið fyrir verkfall. Það er verulega umhugsunarvert í sjálfu sér að ríkisstarfsmenn þurfi nánast í öllum tilvikum að fara í einhverskonar átök við fjármálaráðherra.“

Í tilkynningu frá SFR kemur fram að mikið beri á milli aðila.

Ríkisstjórnin, með fjármálaráðherra í broddi fylkingar, hefur ákveðið að hluti starfsmanna ríkisins, félagsmenn SFR og SLFÍ, eigi ekki að njóta sambærilegra launahækkana og aðrir ríkisstarfsmenn hafa fengið í gegnum gerðardóm og samninga. Fjármálaráðherra hefur lagt þá línu að ekki eigi að semja við starfsmenn sýslumannsembætta, tollstjóra, háskólans, landspítalans, fangaverði, sjúkraliða, lögreglumenn og fleiri á sambærilegum nótum. Þessi skilaboð frá fjármálaráðherra verða ekki skilin á annan hátt en að ríkisvaldið telur að þessar stéttir eigi ekki að njóta sambærilegra launabreytinga og aðrar stéttir hjá hinu opinbera,“ segir í tilkynningu. Þar kemur einnig fram að nú muni félögin hefjast handa við að undirbúa verkföllin sem hefjast 15. október ef ekki næst að semja.

Verkfallið nær til 4.600 félagsmanna.
Verkfallið nær til 4.600 félagsmanna. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert