Uppbygging nýs íbúðahverfis í Auðbrekku í Kópavogi hefst líklega næsta vor eða um hálfu ári síðar en væntingar voru um í fyrrahaust.
Tillaga að breyttu deiliskipulagi á neðri hluta reitsins var kynnt fyrir skipulagsnefnd Kópavogsbæjar síðdegis í gær. Fylgja hér með nýjar teikningar af hverfinu.
Um er að ræða endurbyggingu Auðbrekkunnar sem afmarkast af Hamraborg í suðri og Nýbýlavegi í norðri. Þar er nú ýmiss konar atvinnurekstur, þ.m.t. veitingastaðir, bifreiðaverkstæði og verslanir. Veitingarekstri hefur vaxið fiskur um hrygg á svæðinu og eru nú margir veitingastaðir við Nýbýlaveginn, gegnt Lundi, einu nýjasta íbúðahverfi Kópavogs.