Undirstriki brot Seðlabankans

Umboðsmaður Alþingis hefur skilað áliti um Sjóvármálið.
Umboðsmaður Alþingis hefur skilað áliti um Sjóvármálið. mbl.is/Árni Sæberg

Ráðstöfun Eignasafns Seðlabanka Íslands á eignum fyrir hundruð milljarða kann að vera í uppnámi í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis.

Þetta er mat Heiðars Guðjónssonar fjárfestis sem telur álit umboðsmanns á embættisfærslum Seðlabankans í Sjóvármálinu vera sigur fyrir sinn málstað. „Ég er mjög ánægður með niðurstöðuna. Mér sýnist það algjörlega skýrt að Seðlabankinn braut á mér og gegn lögum með því að kæra mig fyrir engar sakir. Svo er því lýst í áliti umboðsmanns hvernig Seðlabankinn hafi ekki aðeins brotið gagnvart mér, heldur á réttindum vel á annað hundrað manns sem hafa verið kærðir af gjaldeyriseftirlitinu og Seðlabankanum. Samkvæmt umboðsmanni stendur ekki steinn yfir steini í verklagi Seðlabankans.“

Stöðvaði kaupin á Sjóvá

Málið á sér þann aðdraganda að í nóvember 2010 stöðvaði ESÍ það að fjárfestingafélagið Ursus, sem er í eigu Heiðars, fengi í félagi við aðra fjárfesta að kaupa stóran hlut í tryggingafélaginu Sjóvá.

Ástæðan var meint brot Ursusar á reglum um gjaldeyrismál.

Hinn 23. nóvember 2010 lagði Heiðar fram kvörtun til umboðsmanns, sem nú hefur verið svarað.

Hinn 26. nóvember 2010 ákvað Seðlabankinn að vísa málinu til lögreglu. Sérstakur saksóknari ákvað 27. febrúar 2012 að rannsókn málsins skyldi hætt og kærði Seðlabankinn niðurstöðuna til ríkissaksóknara.

Fram kemur í umfjöllun umboðsmanns Alþingis að „ákvörðun sérstaks saksóknara var staðfest af ríkissaksóknara 23. apríl 2012, þar sem tiltekin ákvæði í þeim reglum um gjaldeyrismál sem á reyndi voru ekki talin hafa átt fullnægjandi lagastoð svo beitt yrði refsingum við meintum brotum á þeim“.

Heiðar höfðaði mál gegn Seðlabankanum og ESÍ og hljóðar bótakrafan upp á tæpa tvo milljarða.

„Seðlabankinn krafðist frávísunar af tæknilegum ástæðum, enda vilja þeir ekki að málið fái efnislega meðferð hjá dómstólum,“ segir Heiðar. Hinn 21. október mun Héraðsdómur Reykjavíkur birta niðurstöðu sína varðandi frávísunarkröfu SÍ.

Fóru út fyrir valdsvið sitt

Heiðar telur starfsmenn Seðlabankans hafa farið út fyrir valdsvið sitt. „Það er skortur á heimildum hjá Seðlabankanum til að vinna eins og hann vinnur. Það er skortur á hæfni. Það er ítrekað sagt að það vanti þekkingu og reynslu til að fara með gjaldeyrismálin. Svo er algjör skortur á ábyrgð, enda bera þeir ekki ábyrgð á mistökum og því að hafa farið langt út fyrir valdsvið sitt.“

Heiðar telur umboðsmann sýna fram á að Seðlabankanum hafi verið óheimilt að stofna Eignasafn Seðlabanka Íslands, sem síðar seldi Sjóvá. ESÍ hafi átt eignir fyrir samtals vel á fjórða hundrað milljarða.

„Eignasafnið er nú í uppnámi, enda segir umboðsmaður að til þessa félags hafi ekki verið stofnað með lögmætum hætti,“ segir Heiðar.

Fram kemur í áliti umboðsmanns að „vissulega kann að vera uppi sú staða í tilteknum málaflokkum“ eins og eftir hrunið „að Alþingi þurfi með skjótum hæti að skapa stjórnvöldum nauðsynleg skilyrði til þess að taka á bráðum vanda á þeirri stundu sé ekki fyllilega ljóst hversu umfangsmikill hann er eða hvaða úrræði þurfa að vera tiltæk“.

Spurður um þetta sjónarmið segir Heiðar að umboðsmaður skrifi að ýmislegt megi afsaka með þessum óvenjulegu aðstæðum.

„Hann segir hins vegar að ekki sé hægt að afsaka að starfsmenn Seðlabankans fara fram þar sem þá skortir lagaheimildir og að þeir geti ekki skýlt sér á bak við það að það hafi verið löggjafanum eða einhverju ráðuneyti að kenna, að það væru ekki nægilegar lagaheimildir. Það er vegna þess að þeir mega ekki fara fram nema að það sé skýr lagaheimild. Starfsmenn Seðlabankans verða að bera ábyrgð ef þeir fara fram án lagaheimildar.“

Heiðar Guðjónsson.
Heiðar Guðjónsson. mbl.is/hag
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert