Karl verður skipaður dómari

Karl Axelsson.
Karl Axelsson.

Karl Axelsson hæstaréttarlögmaður verður skipaður dómari við Hæstarétt. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Þar segir að samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu muni Ólöf Nordal innanríkisráðherra fara með tillögu þess efnis á fund ríkisstjórnar á föstudag. Þá segir að frestur til að gera athugasemdir við tillöguna sé liðin og ráðherrann því bundinn af henni. Ennfremur segir að Ólöf hafi skrifað undir ráðningu Karls en á eftir að fá staðfestingu forseta Íslands.

Starfið var auglýst í júlí sl. og voru umsækjendur þrír, eða þau Davíð Þór Björgvinsson, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla og lagadeild Háskóla Íslands, Ingveldur Einarsdóttir, settur dómari við Hæstarétt Íslands, og Karl Axelsson hæstaréttarlögmaður og dósent við lagadeild Háskóla Íslands.

Það var niðurstaða dómnefndar að Karl væri hæfastur til að hljóta skipun í embættið. Niðurstaðan hefur hins vegar þótt vera umdeild. 

Fram hefur komið að Davíð Þór hafi skorað hæst þegar menntun umsækjenda var skoðuð, þá Ingveldur en Karl lægst. Reynsla Ingveldar af dómarastörfum hafi hins vegar verið talin vega þyngra en reynsla Davíðs Þórs, og bæði voru þau talin reynslumeiri en Karl hvað þetta varðar. Í mati á reynslu umsækjenda af lögmannsstörfum var Karl sagður standa hinum umsækjendunum tveimur mun framar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert