„Við teljum að þessi ummæli séu mjög alvarleg og að þau heyri öll undir refsiákvæði hegningarlaga,“ segir Björg Valgeirsdóttir, lögmaður Samtakanna 78 sem hafa kært ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir að taka kæru þeirra vegna hatursumræðu ekki til rannsóknar.
mbl.is var á skrifstofu ríkissaksóknara þar sem kæran var lögð fram rétt eftir hádegi og ræddi við Björgu og Auði Magndísi Auðardóttur, framkvæmdastýru samtakanna.
Ummælin voru kærð sem brot á grein 233. A í almennum hegningarlögum:
233. gr. a. Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.
Verstu ummælin segir Björg að séu enn til meðferðar hjá lögregluembættum í öðrum landshlutum t.a.m. hafi þar verið verið um að ræða morðhótun. Eftirfarandi eru dæmi um ummæli sem samtökin kærðu í vor.
- „Á nú að fara eyðileggja sakleysi barnanna að foreldrum forspurðum? Ég myndi flokka þetta undir barnaníð vera troða kynvillu í saklaus börn. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar vinsamlega haldið saurugu hugsunum og löngunum ykkar frá börnunum mínum...“
- „Hlutlausa kynfræðslu á að veita í skólum en ALDREI réttlæta ónáttúrulega kynhegðan fyrir saklausum börnum og kalla það sem er óeðlileg eðlilegt!!!“.
- „Hvaða fræðsluprógramm ertu að tala um??? Sjúkdóm þessa fólks ??? Kynórana ???? -- Þetta er þér svo mikið áhugamál að ég fer að halda að þú sért hommi og einn af þessu fólki.“
- „Hvar væri þjóðin ef ekki væri fyrir þig? Allir labbandi í G streng og japlandi á typpasleikjóum. Það þarf bara að gera þessa klámkalla að tunnumönnum á öfuguggatogara. Þessi yfirvöld eru á villigötum. Það tekur annar hver maður í dag trollið inn að aftan!“
- „Við hlustendur útvarps Sögu kærum okkur ekki um neinar fjandans útskýringar Óskars Steins á þessari kynvillu. Þetta er ógeðslegt. Að innræta í börn hvernig kynvillingar eðla sig í rúminu. Óskar Steinn getur þess vegna setið heima hjá sér heldur en að troða sér inn á útvarp Sögu. Þvílíkt ógeð.“
- „Samtökin 78 sem eru hommar og lesbíur og eru alltaf að færa sig upp á skaftið eins og sagt var í gamladaga. Eru þessi samtök ekki búin að ganga nógu langt þegar þau eru komin með þjóðkirkjuna í vasann - Stjórn Reykjavíkur upp á arminn með hinsegingöngur sem taka fram 17. júní hátíðarhöldum þjóðarinnar - merkingar á götum borgarinnar - sér fána um alla borg. - Og á nú að fara að stíga sama spor og þýsku nazistarnir gerðu og kommarnir í Rússlandi að fara að heilaþvo börnin í landinu með kynlífsfræðslu samkynhneigðra. Fræðslu um það hvernig kynvillingar þessa lands og annarra búa til börnin sem eiga að erfa land og þjóð. -- NEI - Nú er ég að minnsta kosti að fá nóg...“
- „Hommar eru yfirleitt prýðismenn, en yfirgangur rass-fasistanna í Samtökunum '78 gengur út yfir allan þjófabálk.Mér finnst heilbrigðisyfirvöld vera allt of lin, eða kannski hrædd, við að benda á óþrifin og smithættuna sem fylgir þeirri blöndu af saur, sæði og blóði, sem óhjákvæmilega fylgir athöfnum homma, ekki aðeins eyðni, heldur líka coli- bakteríur og fleira góðgæti. Hringvöðvinn rifnar auk þess, þannig að margir hommar neyðast til að ganga með bleyju. Hvar eru heilbrigðisyfirvöld? Og af hverju er ekki blessuðum börnunum sagt frá þessu?“