Hollenska móðirin í 11 ára fangelsi

Amfetamín.
Amfetamín. AFP

Hollensk kona var í Héraðsdómi Reykjaness dæmd í 11 ára fangelsi fyrir stór­felld­an inn­flutn­ing á am­feta­míni, kókaíni og MDMA. Íslenskur maður á þrítugsaldri var dæmdur í 5 ára fangelsi fyrir að hafa tekið við efnunum hér á landi. Farið hefur verið fram á að hún verði áfram í gæsluvarðhaldi. 

Dómur var kveðinn upp í málinu í morgun.

Mirjam Foekje van Twuijver kom ásamt dótt­ur sinni til lands­ins á föstu­dag­inn langa með flugi frá Amster­dam og áttu pantað flug­f­ar til baka á mánu­dags­morg­ni. Alls voru þær mæðgur með sam­tals 9.053,55 g af am­feta­míni að 69 til 70% styrk­leika, 194,81 g af kókaíni að 64% styrk­leika og 10.027,25 g af MDMA, að 78% styrk­leika, ætluðu til sölu­dreif­ing­ar hér á landi í ágóðaskyni, fal­in í tveim­ur ferðatösk­um.

Í kjöl­farið voru mæðgurn­ar úr­sk­urðaðar í gæslu­v­arðhald og Íslend­ing­ur­inn, Atli Freyr Fjölnisson, hand­tek­inn og úr­sk­urðaður í gæslu­v­arðhald.

Í ákær­unni seg­ir að maður­inn hafi tekið á móti pakkn­ing­um og tösku frá hol­lensku kon­unni, við Hót­el Frón að Lauga­vegi 22a, sem hann taldi að inni­héldu öll fram­an­greind áv­ana- og fíkni­efni. Hann er jafn­framt ákærður fyr­ir að hafa ætlað að koma þeim áleiðis til ótil­greindra aðila hér á landi til að hægt yrði að koma efn­un­um í sölu­dreif­ingu, en lög­regl­an hafði þá áður lagt hald á efn­in og komið fyr­ir gervi­efni í þeirra stað.

Bæði neituðu þau sök í mál­inu en dóttir Twuijver var ekki ákærð í mál­inu. 

Hvorki Twuijver né Atli Freyr voru viðstödd dómsuppkvaðninguna en hún hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því hún var handtekin um páskana. Atli Freyr er ekki lengur í gæsluvarðhaldi og ekki verður farið fram á að hann sæti gæsluvarðhaldi, samkvæmt því sem fram kom í dómssalnum í morgun. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvort dóminum verði áfrýjað en lögmaður Atla Freys var ekki viðstaddur dómsuppkvaðninguna í morgun og lögmaður hennar átti eftir að kynna fyrir skjólstæðingi sínum niðurstöðu dómsins.

Dómurinn yfir Twuijver er einn þyngsti dómur sem hefur fallið í fíkniefnamáli en árið 2001 var Tryggvi Rúnar Guðjónsson dæmdur í 11 ára fangelsi í héraðsdómi en hann var fundinn sekur um að hafa smyglað 16.376 e-töflum, 59,33 g af töflumulningi rúmlega 200 g af kókaíni og ríflega átta kílóum af hassi til landsins.

Dómurinn í heild

Frétt mbl.is: Ákærð fyrir smygl á 20 kg af dópi

Frétt mbl.is: Staðfesti farbann yfir stúlkunni

Frétt mbl.is: Mæðgur reyndu að smygla fíkniefnum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert