Myndi hafa veruleg áhrif á starfsemi Háskóla Íslands

Aðalbygging Háskóla Íslands mun loka komi til verkfalls.
Aðalbygging Háskóla Íslands mun loka komi til verkfalls. Ómar Óskarsson

Verkfall SFR, sem hefst í næstu viku náist ekki að semja, myndi hafa veruleg áhrif á starfsemi Háskóla Íslands, einkum kennsluna þar sem umsjónarmenn húseigna háskólans eru félagar í SFR. Þetta kemur fram í tölvupósti sem nemendum við skólann barst frá Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands í dag. 

Í póstinum kemur fram að hefðbundin kennsla geti ekki farið fram ef til verkfalls komi þar sem þá verði kennslustofur læstar. Þá verða hús háskólans sem ekki hafa sjálfvirka rafræna opnun ekki opnuð. Verkfallið myndi þó ekki snerta Háskólabíó sem verður opið.

Þær byggingar sem yrðu lokaðar eru m.a. Aðalbyggingin, Læknagarður, Árnagarður og Eirberg.

Ef ekki næst að semja hefst verkfall SFR 15. október. SFR er í samfloti við Sjúkraliðafélag Íslands. Félagsmenn SFR sem starfa hjá Landspítalanum, Ríkisskattstjóra, Tollstjóranum og sýslumannsembættunum myndu fara í ótímabundið verkfall. Aðrir félagsmenn fara í tímabundnar vinnustöðvanir og fara þær fram eins og hér segir:

  • Frá og með miðnætti aðfaranótt fimmtudagsins 15. október til miðnættis föstudaginn 16. október 2015 (2 sólarhringar).
  • Frá og með miðnætti aðfaranótt mánudagsins 19. október til miðnættis þriðjudaginn 20. október 2015 (2 sólarhringar).
  • Frá og með miðnætti aðfaranótt fimmtudagsins 29. október til miðnættis föstudaginn 30. október 2015 (2 sólarhringar).
  • Frá og með miðnætti aðfaranótt mánudagsins 2. nóvember til miðnættis þriðjudaginn 3. nóvember 2015 (2 sólarhringar).
  • Frá og með miðnætti aðfaranótt fimmtudagsins 12. nóvember til miðnættis föstudaginn 13. nóvember 2015 (2 sólarhringar)."

Til viðbótar getur svo komið til ótímabundinnar vinnustöðvunar frá og með miðnætti 16. nóvember.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert