Senda nígerískan hælisleitanda úr landi

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Brynjar

Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur um að vísa skyldi nígerískum hælisleitanda úr landi var staðfest af Hæstarétti í dag. Í apríl 2014 úrskurðaði innanríkisráðuneytið að umsókn mannsins um hæli á Íslandi yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og að hann og umsókn hans skuli send til Ítalíu.

Fyrr í þessari viku greindi Ólöf Nordal innanríkisráðherra frá því að beðið yrði með að vísa tveimur hælisleitendum til Ítalíu eftir að Hæstiréttur staðfesti dóm héraðs um brottvísun þeirra í síðustu viku. Ólöf sagðist hafa farið fram á að þess­ir aðilar yrðu ekki send­ir til baka að svo stöddu „meðan ráðuneytið er að fara yfir þetta mál og heild­ar­sam­hengi hlut­anna.“

Fyrri frétt mbl.is: Verða ekki sendir aftur til Ítaliu

Þetta kom fram í svari Ólafar við fyrirspurn þingmannsins Helga Hrafns Gunnarssonar um hvort hún væri enn þeirr­ar skoðunar að Ítal­ía, Grikk­land og Ung­verja­land væru ekki ör­ugg lönd fyr­ir hæl­is­leit­end­ur en það kom fram í máli ráðherr­ans á þing­inu í síðasta mánuði. Helgi sagði það ljóst að ef menn­irn­ir sem töpuðu í Hæstarétti í síðustu viku yrðu send­ir til Ítal­íu þyrftu þeir að búa á göt­unni og róta í rusla­tunn­um eft­ir mat.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur yfir manninum kemur fram að hann sé nígerískur ríkisborgari sem kom til Íslands 26. ágúst 2012 og óskaði eftir hæli hér á landi. Nokkrum dögum síðar var tekin hælisskýrsla af stefnanda hjá lögreglu þar sem fram kom að hann hefði flúið Nígeríu af ótta við að verða fangelsaður að ósekju og beittur þar ofbeldi. Hann sagðist jafnframt tilheyra samtökum sem hættulegt væri að tilheyra. Þannig hefði faðir hans verið ráðinn af dögum í tengslum við formennsku samtakanna.

Dómur Hæstaréttar í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert