Vitnisburður Twuijver með ólíkindum

Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði
Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði Ómar Óskarsson

Dómari segir að það sé með ólíkindum að Mirjam Foekje van Twuijver hafi ekki verið ljóst strax á flugvellinum í Amsterdam að um meira magn fíkniefna var í töskum hennar og dóttur hennar. Twuijver var í morgun dæmd í 11 ára fangelsi fyrir smyglið á um 20 kg af fíkniefnum hingað til lands.

Fyrri frétt mbl.is: Hollenska móðirin í 11 ára fangelsi

Við réttarhaldið kom fram að Twuijver kvaðst hafa séð farangurstöskur þeirra fyrst á flugvellinum og treyst því að engin fíkniefni væru í tösku dóttur hennar. Hún innritaði sig og dóttur sína á flugvellinum og lét töskurnar á færiband.

Hvor taska um sig, sem voru að svipaðri stærð samkvæmt ljósmyndum og leyfðar eru í handfarangri, voru um tíu kíló. Ákærða gaf þá skýringu á vigt tasknanna að dóttir hennar hafi þurft mikið af snyrtivörum, hárblásara o.fl. sem henni hafi verið næg skýring á þunga tasknanna.

Lét sér í léttu rúmi liggja hvaða efni eða hversu mikið var af þeim í töskunum

Segir í dómi Héraðsdóms Reykjaness að þótt ásetningur hennar hafi ekki staðið til annars en að flytja tvö til þrjú kíló af fíkniefnum til landsins, líkt og hún hélt fram ber hún refsiábyrgð á flutningi þeirra efna sem þær mæðgur voru með þar sem hún lét sér í léttu rúmi liggja hvaða efni eða hversu mikið af efnum var í töskunum og gekk ekki úr skugga um það sjálf. Mátti hún því gera ráð fyrir hverju sem er í þessum efnum. Tók hún því áhættuna á því sem í töskunum var og bar ábyrgð á þeim. 

Bar ábyrgð á dóttur sinni en flutti samt inn fíkniefni

„Er skýring ákærðu um að þyngdin hafi m.a. legið í snyrtivörum, hárblásara og flíkum fyrir dóttur hennar að engu hafandi, enda er það algjör firra að halda slíku fram og samræmist ekki lýsingu ákærðu á fátækt þeirra og neyð í heimalandinu,“ segir í dómi héraðsdóms.

Með vísan til þess að Twuijver lét þriðja aðila pakka niður í töskur fyrir bæði sig og dóttur sína, sem er sautján ára, ásamt því að Twuijver vissi að hún átti að flytja fíkniefni til landsins, hafði hún sérstaka ástæðu til að kanna innihald tösku dóttur sinnar. Mátti  henni vera ljóst eða í það minnsta hefur hún látið sér það í léttu rúmi liggja hvort fíkniefni voru einnig í tösku dóttur hennar. Telur dómurinn að með aðgerðarleysi sínu varðandi tösku dóttur hennar og vitneskju hennar um að ákærða væri að fara að flytja fíkniefni í farangri sínum, sé skilyrði 18. gr. almennra hegningarlaga um ásetning uppfyllt.

Telur dómurinn Twuijver hafi verið ljóst eða látið sér í léttu rúmi liggja, hvort eða hversu mikið af fíkniefnum var í ferðatöskum hennar og dóttur hennar en hún bar ábyrgð á dóttur sinni vegna ungs aldurs hennar.

Hún var því sakfelld fyrir innflutning á þeim efnunum, 9.053,55 g af amfetamíni, 10.027,25 g af MDMA og 194,81 g af kókaíni. 

Ekkert sem staðfestir fjárhagskröggur hennar í heimalandinu

Ekkert annað hefur sannast en að konan hafi verið burðardýr í umrætt sinn og átt að flytja efnin frá einum aðila til annars. Hún lýsti fyrir dóminum fjárhagskröggum sínum og öðrum vandamálum sem knúðu hana til að taka verkið að sér. Engin gögn hafa verið lögð fram sem staðfesta þær  frásagnir.  

Twuijver kvaðst hafa verið í mjög erfiðum aðstæðum heima hjá sér. Hún hafi misst allt og ekki átt neitt þannig að dóttir hennar hafi þurft að búa hjá vinkonu sinni. Twuijver hafi verið í erfiðu sambandi með karlmanni. Þá hafi hún kynnst manni, Jeroen Bol, sem hafi boðið henni að koma með sér til Reykjavíkur, sem hún hafi gert í tvígang. Hún hafi fengið um fimm þúsund evrur greiddar fyrir fyrri ferðina en tíu þúsund evrur fyrir seinni ferðina. Twuijver hafi ekki vitað í fyrstu ferðinni að verið væri að flytja fíkniefni til Íslands en í næstu ferð hafi hana farið að gruna það. Twuijver kvaðst hafa pakkað sjálf farangri sínum í þeim ferðum.

Síðar hafi hún kynnst Nikki og Jeroen Knip, Knip sé viðurnefni, sem hafi beðið hana að fara í þessa ferð. Þau hafi komið nokkrum sinnum heim til hennar.

Hún hafi verið í það miklum fjárhagsvandræðum að hún hafi bara átt tvo kosti, annars vegar að fara í vændi og hins vegar að fara í svona ferð. Þau hafi spurt hana hvort hún gæti tekið sama magn af fíkniefnum og hún hafði þegar farið með í tvígang, þ.e. um tvö til þrjú kíló, en hún hafi ekki vitað hvaða efni það voru.

Ætlaði að nota ferðina sem einhvers konar lok á erfiðu tímabili

Twuijver hafi spurt þau hvort dóttir hennar mætti koma með þar sem þær hefðu átt svo erfitt tímabil og aldrei farið tvær saman í frí. Hana hafi því langað til að nota ferðina sem einhvers konar lokun á erfiðu tímabili.

Twuijver kvaðst hafa bókað flugið fyrir þær sjálf en fengið peninga til þess frá Nikki og Knip. Hún hafi einnig valið hótelið sjálf. Hún kvaðst hafa átt að fá tuttugu þúsund evrur fyrir ferðina.

Twuijver kvaðst hafa liðsinnt lögreglu eins og hún gat við rannsókn málsins, fundið Facebook-síðu Nikki og Jeroen auk þess að finna út hvar þau bjuggu. Þá hafi hún tekið þátt sem tálbeita eftir að hún var handtekin hér á landi.

Hún kvað afleiðingar þess að hafa liðsinnt við rannsókn málsins vera að hún gæti aldrei farið í heimabyggð sína aftur þar sem hún óttist um líf sitt. Hún hafi fengið hótanir. Þá hafi vinir hennar snúið baki við henni vegna málsins.

Hafði aldrei hitt manninn áður 

Atli Freyr Fjölnisson var dæmdur í fimm ára fangelsi í morgun en hann var handtekinn er hann tók við efnunum af Twuijever. Við réttarhöldin kvaðst Atli Freyr hafa verið í samkvæmi þar sem hann hafi hitt mann. Sá hafi kynnt sig sem Bart og sagst vera hollenskur. Sá hafi beðið sig um að sinna ákveðnu verkefni. Bart hafi látið sig hafa síma og 160.000 þúsund krónur fyrir viðvikið og síðan átti hann að fá einhverja greiðslu þegar hann væri búinn að skila töskunni.

Ekki hvarflað að honum að um fíkniefni væri að ræða

Hann hafi átt að fara að Hótel Frón á Laugavegi og taka á móti töskum. Atli Freyr kvaðst hafa hitt Bart um viku áður en mæðgurnar komu. Ekki hafi hvarflað að sér eina mínútu að það væru fíkniefni sem hann átti að sækja. Hann hefði aldrei farið á staðinn ef hann hefði grunað að um fíkniefni væri að ræða, hann hafi talið þetta vera stera.

Aðspurður hvers vegna hann hafi ekki notað sinn eigin síma kvað hann manninn hafa látið sig hafa síma sem hann hefði átt að nota. Maðurinn hafi sent sér skilaboð í símann og m.a. um að tímaáætlun hefði breyst. Hann hafi átt að taka upp á Hótel Frón mæðgur og töskurnar þeirra og fara með þær á Grand Hótel. Alla vega hafi hann átt að sækja töskurnar og fara með þær á Grand Hótel en hann mundi ekki hvað hann átti að gera við mæðgurnar. Hann hafi þar átt að fá viðbótargreiðslu, gæti verið tvö til þrjú hundruð þúsund krónur.

Atli Freyr kvaðst hafa verið nýkominn út af geðdeild þegar atvikið átti sér stað en hann hafi verið þar vegna geðrofsástands, þráhyggju og fleira. Þá hafi hann farið í margar meðferðir á Vog en hann hafi verið undir áhrifum ýmissa lyfja þegar hann var handtekinn. Hann kvaðst vera atvinnulaus og ekki í skóla en hann væri í sambúð með barnsmóður sinni.

Dómurinn telur  hafið yfir allan vafa að ákærða hafi mátt vera ljóst að hann var að leggja fíkniefnaflutningi lið og lét hann sér í léttu rúmi liggja hvaða efni hann ætlaði að flytja og í hvaða magni. Er framburður hans um annað ótrúverðugur. Því verði honum gerð refsing fyrir það sem hann var ákærður fyrir.

 Þrátt fyrir erfiðleika Atla Freys og veikindi í langan tíma verður það ekki metið honum til refsilækkunar. Hann eigi sér því engar málsbætur.

Atli Freyr á sér nokkurn sakaferil frá árinu 2008 en honum hefur sex sinnum áður verið gerð refsing fyrir fíkniefnalagabrot. 

Refsiramminn fullnýttur gagnvart burðardýrum

Brynjar Níelsson, lögfræðingur og þingmaður, skrifar um niðurstöðu héraðsdóms á Facebooksíðu sinni í dag:

„Nú hefur héraðsdómur dæmt hollenska konu í 11 ára fangelsi við innflutning á ólöglegum fíkniefnum. Jafnframt er grey sem á langa geðsjúkdómasögu dæmt í 5 ára fangelsi fyrir að sækja pakka sem hann veit ekkert um. Ég hef lengi velt því fyrir mér hvað fór úrskeiðis hjá íslenskum dómstólum við ákvörðun refsingar í fíkniefnamálum. Þegar refsiramminn er nýttur í botn gagnvart burðardýrum er ekkert svigrúm til hærri refsinga gagnvart eigendum efnanna og skipuleggjendum innflutnings þeirra.

Eða trúa menn enn að þungar refsingar séu réttu viðbrögðin við þeim heilbrigðisvanda sem neysla fíkniefna er?,“ skrifar þingmaðurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka