962 milljónir af 6,65 milljörðum gerðar upptækar

Frá dómsuppkvaðningu í héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Frá dómsuppkvaðningu í héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á kröfu ákæruvaldsins í Marple-málinu svokallaða um að gera upptæk öll verðbréf, innistæður á bankareikningi og aðrar eignir í fjárfestingasjóði á nafni Marple holding S.A. SPF í Banque Havilland bankanum í Lúxemborg.

Heildarupphæðin nam um 6,7 milljónum evra síðast þegar virði safnsins var virt. Það nemur um 962 milljónum króna miðað við gengi dagsins í dag.

Frétt mbl.is: Magnús í 18 mánaða fangelsi

Heildarupphæðin um 6,65 milljarðar

Þetta er þó aðeins lítill hluti af þeirri heildarupphæð sem sérstakur saksóknari fór fram á að væri gerð upptæk í málinu.

Lét embætti sérstaks saksóknara kyrrsetja eignir félaganna Legatum, Bm Trust, Holt Holding, SKLux og upphæðir á reikningi Skúla Þorvaldssonar sjálfs, en hann var meðal ákærðu í málinu og var dæmdur í sex mánaða fangelsi í dag.

Á hlaupareikningi og verðbréfareikningi Legatum voru kyrrsettar eignir sem síðast voru metnar á 24 milljón evrur og á reikningum BM trust voru 14,6 milljón evrur. Á hlaupareikning Skúla voru 230 þúsund evrur og hjá Holt holding voru kyrrsettar tæplega 1,1 milljón evrur. Tæplega 10 þúsund evrur voru á reikningum SKLux.

Héraðsdómur féllst á upptöku 14% þess sem var kyrrsett

Samtals nam þetta, síðast þegar eignasafnið var virt (að stærstum hluta í apríl 2014), 46,75 milljón evrum, eða 6,65 milljörðum íslenskra króna. Héraðsdómur féllst því aðeins á að gera upptæk rúmlega 14% af heildarkröfu ákæruvaldsins.

Í febrúar á þessu ári greindi Viðskiptablaðið frá því að ef dómstólar myndu fallast á allar upptökukröfur ákæruvaldsins myndi slíkt greiða upp allan kostnað við rekstur embættis sérstaks saksóknara frá því að það var sett á laggirnar árið 2009. Var þá beinn kostnaður af rekstri embættisins orðinn 5.520.297.157 krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert